Starfsbraut er ætluð nemendum sem hafa viðurkennd greiningargögn um fötlun skv. lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Námið er einstaklingsmiðað og sveigjanlegt. Starfsbraut er 240 einingar. Nám á starfsbraut miðast alltaf við 4 ár. Einingafjöldinn sem nemendur útskrifast með er einstaklingsbundinn en nemendur útskrifast eftir 4 ár óháð einingafjölda. Nám og kennsla á starfsbraut er skipulögð með tilliti til þess nemendahóps sem innritast á brautina hverju sinni. Áhersla er lögð á að efla félagsleg samskipti nemenda og búa þá undir áframhaldandi nám við hæfi og/eða þátttöku á vinnumarkaði.
Forkröfur
Til þess að geta innritast á brautina þurfa nemendur að hafa viðurkennd greiningargögn um fötlun skv. lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992.
Skipulag
Starfsbraut er 240 einingar. Nám á starfsbraut er 4 ár og gert er ráð fyrir að nemandi ljúki u.þ.b. 30 einingum á önn. Einingafjöldinn sem nemendur útskrifast með er einstaklingsbundinn en nemendur útskrifast eftir 4 ár óháð einingafjölda. Í kjarna brautarinnar eru 186 einingar og í óbundnu vali eru 54 einingar. Ekki er sett skilyrði um að nemandi ljúki öllum skilgreindum kjarnaáföngum enda tekur námið mið af þörfum hvers og eins nemanda.
Námsmat
Námsmat á starfsbraut er fjölbreytt. Gert er ráð fyrir að leiðsagnarmati sé beitt í sem mestum mæli á brautinni en í því felst að nemandi fái endurgjöf með reglulegum og skipulegum hætti um hvar hann stendur í námi. Nánari útfærsla á tilhögun námsmats er í höndum kennara í hverjum áfanga. Frekari upplýsingar um námsmat er að finna á heimasíðu skólans.
Reglur um námsframvindu
Gert er ráð fyrir að nemandi á starfsbraut ljúki að jafnaði um 30 einingum á önn en nemanda er frjálst að taka fleiri eða færri einingar á önn eftir getu og áhuga. Um þetta skal hafa samráð við sérnámskennara. Ekki er sett skilyrði um að nemandi þurfi að ljúka ákveðnum einingafjölda á önn til þess að geta flust milli anna.
Hæfnisviðmið
- beita skapandi hugsun í námi og daglegum athöfnum
- gera sér grein fyrir því hvaða lífsvenjur eru uppbyggilegar fyrir andlegt og líkamlegt heilbrigði
- taka þátt í þjóðfélagi jafnréttis, lýðræðis og sjálfbærni
- gera sér grein fyrir eigin styrkleikum og veikleikum í námi, starfi og daglegu lífi
- axla ábyrgð á sjálfum sér í námi, starfi og daglegu lífi
- lesa, útskýra og ræða upplýsingar á íslensku í samræmi við eigin færni
- skilja og eiga samskipti á ensku í samræmi við eigin færni
- skilja og eiga samskipti um tölulegar upplýsingar í samræmi við eigin færni
- gera sér grein fyrir því hvaða þekking, leikni og hæfni er nauðsynleg til þess að eigin framtíðaráform rætist.