Jafnréttisstefna

Jafnréttisstefna Framhaldsskólans á Húsavík 2020-2023

Útgáfudagur: 06.05.2020

Útgáfa: 1.0

Ábyrgðarmaður: Skólameistari

Í Framhaldsskólanum á Húsavík er lögð áhersla á jafnrétti.

Jafnréttisstefna skólans byggir á 18 gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008. Kveðið er á um að öll fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn skuli setja sér jafnréttisáætlun eða samþætt jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Þrátt fyrir að við Framhaldsskólann á Húsavík starfi færri en 25 manns leggur skólinn áherslu á að jafnréttissjónarmið séu höfð að leiðarljósi í öllu starfi hans og vill setja starfsfólki sínu og nemendum gott fordæmi í þessum efnum. Jafnrétti, sem einn af grunnþáttum aðalnámskrár, á að endurspeglast í starfsháttum skólans, samskiptum og skólabrag. Jafnrétti skal vera sýnilegt í öllu skólastarfinu. Markmið jafnréttisstefnunnar er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum allra sem starfa í skólanum.

Jafnréttistáætlun skólans hjálpar til við að vinna markvisst að því að gæta jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans, m.a. með því að hafa fulltrúa allra kynja í vinnuhópum og nefndum innan skólans. Nauðsynlegt er að bjóða hvort tveggja nemendum og starfsfólki skólans fræðslu um jafnréttismál. Jafnréttisstefna skólans er tól til að beina starfsfólki og skólastarfinu öllu í átt að jafnrétti. Markmiðið er að vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk karla og kvenna. Enn fremur er lögð áhersla á að hugtakið jafnrétti sé túlkað í breiðum skilningi. Með því er átt við að Framhaldsskólinn á Húsavík stuðli að jöfnun rétti og jöfnum tækifærum allra óháð kyni, hverskyns fötlunum, litarhætti, menningu og uppruna. Ekki skal líta á þessa upptalningu sem tæmandi. Jafnréttisstefnu Framhaldsskólans á Húsavík er framfylgt með jafnréttisáætlun.