Uppfært og samþykkt á kennara og skólaráðsfundi vor 2023.
Námsmat
Við Framhaldsskólann á Húsavík er lögð áhersla á að námsmat sé fjölbreytt og taki til sem flestra þátta, s.s. þekkingar, leikni, hæfni, skilnings og gagnrýnnar hugsunar.
Æskilegt er að námsmat byggi á margvíslegum námsmatsaðferðum og það skal fela í sér traustar heimildir um hæfni nemenda. Námsmatsaðferðir geta verið verklegar, munnlegar, skriflegar, falið í sér jafningjamat, sjálfsmat, símat og lokamat eða aðrar aðferðir.
Námsmatið hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar að meta árangur náms þannig að nemandinn, kennarinn og skólinn fái vitneskju um hvernig nemandanum gengur að ná settum námsmarkmiðum. Hins vegar er það leiðsagnarmat sem tryggir að nemandinn fái með reglulegum og skipulegum hætti upplýsingar um hvernig hann stendur í náminu og leiðbeinir honum á uppbyggilegan hátt um hvernig hann getur bætt frammistöðu sína.
Námsmat skal vera í samræmi við markmið náms eins og þeim er lýst í áfangalýsingu. Vægi námsmatsþátta er misjafnt eftir áföngum og er það í höndum hvers kennara að ákveða hverjir þættirnir skuli vera og hvernig vægi þeirra skuli háttað. Sé ekki um próflausan áfanga að ræða skal vægi yfirlitsprófs í lok annar, gilda að hámarki 60% nema um fjarnámsáfanga eða p-áfanga sé að ræða, en í slíkum áföngum getur vægi yfirlitsprófs verið allt að 100%. Skólameistari getur þó heimilað undanþágu frá þessum ákvæðum ef um sérstakar aðstæður er að ræða. Tilhögun námsmats skal birt í námsáætlun sem nemendum er afhent í upphafi annar. Kennari gerir ekki breytingar á þeirri tilhögun nema brýna og rökstudda nauðsyn beri til og skulu nemendur þá upplýstir um breytingarnar áður en til lokamats kemur.
Gefa skal einkunnir í heilum tölum frá 1-10 og þarf nemandi að ná einkunninni 5, eða 45% námsmarkmiða samkvæmt námsáætlun, til að teljast hafa lokið áfanga og öðlast einingar sem hann gefur. Þá getur námsmat í áfanga einnig verið annað hvort staðið (merkt S í námsferli) eða fall (merkt F í námsferli). Nám frá öðrum skólum sem skólinn metur fær merkinguna M í námsferli. Kennarar meta úrlausnir nemenda og bera ábyrgð á námsmati.
Leiðsagnarmat
Við Framhaldsskólann á Húsavík er stundað leiðsagnarmat sem hefur þann tilgang að veita nemanda með reglulegum og skipulegum hætti upplýsingar um hvernig hann stendur í námi. Miðannarmat og vörðuvikur eru liðir í leiðsagnarmati og fara fram með reglulegu millibili á hverri önn.
Miðannarmat
Miðannarmat fer fram þegar námsönn er hálfnuð og felur í sér mat kennara á stöðu nemenda í einstökum áföngum um miðja önn. Matið er gefið í bókstöfum:
- A Nemandinn hefur staðið sig mjög vel í áfanganum. Með sama áframhaldi í áfanganum ætti hann að fá 9-10 í lokaeinkunn.
- B Nemandinn hefur staðið sig vel í áfanganum en gæti gert enn betur. Með sama áframhaldi í áfanganum ætti hann að fá 7-8 í lokaeinkunn.
- C Nemandinn hefur staðið sig sæmilega í áfanganum og þarf að taka sig á. Með sama áframhaldi í áfanganum ætti hann að fá 5-6 í lokaeinkunn.
- D Nemandinn þarf nauðsynlega að bæta sig. Með sama áframhaldi í áfanganum á hann á hættu að ná ekki lágmarkseinkunn í áfanganum.
Miðannarmat er birt í Innu og geta nemendur, og forráðamenn ólögráða nemenda aflað sér upplýsinga um það þar. Athugið að miðannarmat er EKKI hluti af annareinkunn heldur er tilgangur þess að upplýsa nemandann um hvernig staða hans er í náminu og hver lokaeinkunn er líkleg til að vera miðað við að nemandinn haldi áfram á sömu braut.
Vörðuvikur
Vörðuvikur eru haldnar tvisvar sinnum á önn beggja vegna við miðannarmat. Tilgangur vörðuvikna er að upplýsa nemendur um stöðu þeirra í hverjum áfanga. Í annarri vörðuvikunni er haldið stutt viðtal í hverjum áfanga sem annars vegar byggir á sjálfsmati nemandans og hins vegar verkefnum, prófum eða öðrum námsmatsþáttum sem nemandi hefur skilað fram að þeim tímapunkti sem viðtalið fer fram. Í hinni vörðuvikunni skilar kennari nemanda mati á stöðu hans í viðkomandi áfanga. Matið getur farið fram í formi viðtals eða annars sem kennara þykir við hæfi.
Verkefnaskil
Smærri verkefni í áföngum í Framhaldsskólanum á Húsavík eru lögð fyrir vikulega þeim skal skila eigi síðar en föstudögum fyrir staðnema og á sunnudegi fyrir fjarnemendur. Kennarar skulu gæta þess að nemendur hafi að minnsta kosti þrjá daga til að vinna verkefnið. Skiladagar á öðrum námsmatsþáttum eru tilgreindir í námsáætlun eða á öðrum stað þar sem auðvelt er fyrir nemendur að nálgast upplýsingar um þá. Ekki er veittur skilafrestur á námsmatsþáttum nema brýna nauðsyn beri til.
Mat á félagsstörfum og þátttöku í félagslífi á skólaári
Skólaráð tekur ákvörðun um einingafjölda sem hverjum nemanda er veitt fyrir félagsstörf. Skólaráð skipa: skólameistari, aðstoðarskólameistari, tveir kennarar og tveir nemendur. Nemendur skulu sækja um einingar fyrir félagsstörf fyrir auglýstan umsóknarfrest á hverri vorönn. Ekki er hægt að sækja um einingar fyrir félagsstörf sem unnin voru á undangengnum skólaárum. Allar einingar sem nemendur fá fyrir félagsstörf falla undir óbundið val á fyrsta hæfniþrepi á námsbraut. Nemendum er bent á að halda bókhald yfir þann tíma sem þeir verja í félagsstörf. Samkvæmt Aðalnámskrá Framhaldsskóla samsvarar ein eining 18-24 klst. vinnu af hálfu nemenda. Af tímabókhaldinu ákvarðast hversu margar einingar nemendur geta sótt um fyrir þau störf sem tilgreind eru. Nemandi getur þó aldrei sótt um fleiri einingar en það hámark sem kveðið er á um fyrir hvert starf.
- Einingar fyrir stjórn NEF: Nemandi sem gegnir formennsku í nemendafélagi skólans, NEF, getur mest fengið 5 einingar metnar fyrir störf sín enda sé sýnt fram á að hann hafi tekið að sér ábyrgð umfram aðra meðlimi stjórnar. Aðrir nemendur sem sitja í stjórn NEF geta mest fengið 4 einingar metnar fyrir sín störf.
- Árshátíðarnefnd: Nemandi sem gegnir formennsku í árshátíðarnefnd getur mest fengið 2 einingar metnar fyrir störf sín enda sé sýnt fram á að hann hafi tekið að sér ábyrgð umfram aðra meðlimi nefndarinnar. Aðrir meðlimir árshátíðarnefndar geta mest fengið 1 einingu metna fyrir störf sín.
- Stjórn Píramusar og Þispu: Nemandi sem gegnir formennsku í stjórn leikfélags FSH, Píramusi og Þispu, getur mest fengið 2 einingar metnar fyrir störf sín enda sé sýnt fram á að hann hafi tekið að sér ábyrgð umfram aðra meðlimi stjórnarinnar. Aðrir meðlimir í stjórn Píramusar og Þispu geta mest fengið 1 einingu metna fyrir störf sín.
- Leiklist: Nemandi sem tekur þátt í leikriti eða leiklistarnámskeiði á vegum leikfélagsins Píramusar og Þispu getur fengið 1-3 einingar metnar fyrir störf sín. Einingafjöldi fer eftir umfangi þess hlutverks/starfs sem nemandinn gegnir. Skólaráð tekur ákvörðun um einingafjölda í samráði við leikstjóra leiksýningar og/eða kennara leiklistarnámskeiðs.
- Stjórnir klúbba NEF og önnur ráð á vegum skólans: Meðlimir geta mest fengið 1 einingu fyrir störf sín.
- Spurningakeppni framhaldsskólanna (Gettu betur): Fyrir reglulega þjálfun og þátttöku í Spurningakeppni framhaldsskólanna getur nemandi fengið 1-3 einingar metnar. Nemandi getur fengið eina einingu fyrir að taka þátt í þjálfun fyrir keppnina, aðra fyrir að taka þátt í undankeppni í útvarpi fyrir hönd skólans og þá þriðju ef nemandinn tekur fyrir hönd skólans þátt í úrslitakeppni sem fram fer í sjónvarpi.
- Söngkeppni: Fyrir þátttöku í Söngkeppni framhaldsskólanna getur nemandi fengið 1 einingu metna. Þátttaka í undankeppni fyrir Söngkeppni framhaldsskólanna er ekki metin til eininga.
- Kórstarf: Fyrir þátttöku í kór á vegum Tónlistarskóla Húsavíkur getur nemandi fengið 1 einingu skólaári metna.
- Hægt er að sækja um einingar fyrir önnur störf og þátttöku í félagslífi en hér er upptalið, enda sé um að ræða félagslíf á vegum skólans eða í samstarfi við skólann.
Mat á námi frá öðrum skólum
Nemendur fá viðurkennt nám á framhaldsskólastigi metið til eininga við skólann. Gömlum námseiningum er varpað yfir í nýjar en almenna reglan er sú að 3 gamlar einingar eru metnar sem 5 feiningar. Misjafnt er hvernig nám úr öðrum skólum nýtist nemanda í FSH, þ.e.a.s hvort það er metið sem hluti af kjarna brautar eða sem óbundið val. Nauðsynlegt er fyrir hvern og einn nemanda að fara vel yfir námsferil sinn og skipulag með aðstoðarskólameistara.
Nemendur þurfa að fylgjast vel með því að nám sem þeir velja við skólann sé fullnægjandi undirbúningur undir framhaldsnám í öðrum skólum. Upplýsingar um nauðsynlegan undirbúning eiga að vera tiltækar á heimasíðu hvers og eins skóla. Vanti slíkar upplýsingar geta nemendur leitað til náms- og starfsráðgjafa.
Nám á vegum skóla sem ekki starfa samkvæmt Aðalnámskrá framhaldsskóla er ekki metið til eininga. Hið sama gildir um hvers kyns störf sem unnin eru án beinna tengsla við skólann.
Mat á tónlistarnámi
Framhaldsskólinn á Húsavík á í formlegu samstarfi við Tónlistarskóla Húsavíkur um mat á tónlistarnámi.
Hæfniþrep og einingafjöldi er metinn í samræmi við eðli og umfang þess tónlistarnáms sem nemandinn stundar á hverri önn. Matið er framkvæmt í samstarfi við Tónlistarskóla Húsavíkur.
Grunnnám í tónlist er því aðeins metið til eininga við FSH að námið sé stundað á meðan á framhaldsskólagöngu nemandans stendur. Slíkt nám telst vera á hæfniþrepi 1 og er metið sem hluti af óbundnu vali námsbrauta skólans í samræmi við þau skilyrði sem sett eru um hæfniþrep á hverri braut.
Miðnám í tónlist telst vera á hæfniþrepi 2 og framhaldsnám á hæfniþrepi 3. Slíkt nám má meta sem óbundið val á námsbrautum skólans og ákvarðast einingafjöldi af umfangi þess tónlistarnáms sem nemandinn stundar á hverri önn. Sérstaklega skal bent á að tónlistarnám á hæfniþrepi 2 og 3 má meta sem hluta náms á opinni stúdentsbraut. Á þeirri braut tekur nemandi sameiginlegan kjarna stúdentsbrauta, alls 111 einingar. Að öðru leyti er val á brautinni óbundið að því gefnu að nemandi taki a.m.k. 26 einingar á hæfniþrepi 2 og 9 einingar á hæfniþrepi 3. Hægt er að fá mið- eða framhaldsnám í tónlist metið á brautinni upp að allt að 90 einingum. Telst nemandi þá útskrifast af opinni stúdentsbraut með áherslu á tónlist.
Námsframvinda
Um alla áfanga við Framhaldsskólann á Húsavík gildir að nemandinn þarf að ná lágmarkseinkunninni 5, þ.e. 45% námsmarkmiða samkvæmt námsáætlun áfanga, eða S til að teljast hafa staðist þá. Í þeim tilfellum sem áfangi hefur undanfara þarf nemandi að standast hann til þess að geta hafið nám í næsta áfanga á eftir. Gert er ráð fyrir að nemandi á stúdentsbraut ljúki að jafnaði 33-34 einingum á önn, nemandi á almennri braut 20-30 einingum á önn og nemandi á starfsbraut um 30 einingum á önn. Nemendum allra brauta er þó frjálst að taka færri eða fleiri einingar á önn eftir getu og áhuga. Ekki er sett skilyrði um að nemandi þurfi að ljúka ákveðnum einingafjölda til að geta hafið nám á næstu önn en skólinn áskilur sér þó rétt að neita nemanda um skólavist hafi hann ekki lokið neinum einingum á þeirri námsönn sem hann var síðast skráður á.
Reglur um verkefnaskil og hlutapróf
Staðnemendur sem fara í skemmti- og/eða fjölskylduferðir á skólatíma fá ekki tilslakanir varðandi verklegar æfingar,kynningar, hlutapróf eða aðra próftöku á meðan á þeim ferðum stendur. Ef verkleg æfing, kynning, hlutapróf eða próf fer fram í kennslustund á meðan nemandi er fjarverandi fyrirgerir hann rétti sínum til einkunnar fyrir viðkomandi námsmatshluta. Nemendur undir 18 ára aldri eru á ábyrgð foreldra í slíkum ferðum og nemendur sem eru eldri en 18 ára eru á eigin ábyrgð.
Reglur um verkefnaskil nemenda
Skili nemandi sama einstaklingsverkefni/prófi og annar nemandi í hluta eða heild telst hann hafa brotið reglur skólans um verkefnaskil. Reglan gildir einnig ef hópur nemenda í samstarfsverkefni skilar sama hópverkefni og annar hópur að hluta eða heild.
Viðurlög við brotum:
Fyrsta brot: Verði nemandi uppvís að broti á ofangreindri reglu í einhverjum áfanga ræðir kennari við hann og gerir honum grein fyrir alvarleika málsins. Nemandanum er því næst veitt tækifæri til að endurvinna verk sitt og færa til betri vegar. Brot skulu færð í athugasemdir um nemanda á Innu.
Annað brot: Verði nemandi í annað sinn uppvís að broti á ofangreindri reglu, í hvaða áfanga sem er, telst verkefnið ógilt og gefin er einkunnin 0. Þá fær hann einnig formlegt aðvörunarbréf frá skólayfirvöldum.
Þriðja brot: Verði nemandi uppvís að broti á ofangreindri reglu í þriðja sinn hefur hann fyrirgert rétti sínum til setu í viðkomandi áfanga.
Ítrekuð brot á reglum skólans geta leitt til brottvísunar úr skóla.
Brot á þessari reglu fyrnast ekki milli anna eða áfanga. (Brjóti nemandi til dæmis af sér í einum áfanga á 1. önn og öðrum á 3. önn teljast það tvö brot).
Próftökureglur
Í skóladagatali sem lagt er fram í maí ár hvert er kveðið á um námsmatsdaga hverrar annar. Drög að próftöflu eru lögð fram í þriðja Húslestri hverrar annar. Nemendur geta gert breytingartillögur við próftöflu fram að auglýstum fresti ef brýna nauðsyn ber til. Ekki er þó tekið tillit til óska um breytingar á prófdögum vegna persónulegra erinda nemenda, s.s. skemmtiferða eða vinnu utan skóla og ekki verður orðið við óskum um aukapróf vegna slíkra erinda. Nemendum og forráðamönnum er í þessu sambandi bent á að kynna sér námsmatsdaga í skóladagatali og Húslestri áður en teknar eru ákvarðanir um ferðalög eða aðrar fjarvistir nemenda á skólatíma.
Skrifleg próf í lok annar taka eina og hálfa klukkustund.
Nemendur skulu koma stundvíslega til prófs og athuga á auglýsingatöflu skólans hverju sinni hvar þeim er ætlaður staður í prófinu. Komi nemandi of seint til prófs skerðist próftími hans sem því nemur. Komi nemandi meira en einni klukkustund of seint til prófs hefur hann glatað rétti sínum til að þreyta prófið. Óútskýrð fjarvist úr prófi jafngildir falli í viðkomandi áfanga.
Við próf og annað námsmat sem nemandi þreytir við Framhaldsskólann á Húsavík má nota þau gögn sem kennari tilgreinir meðal annars á forsíðum prófa. Kennarar skulu kynna leyfileg hjálpargögn fyrir nemendum sínum fyrir próf og annað námsmat. Nemendum er óheimilt að veita samnemendum hjálp eða þiggja hjálp þeirra á meðan próftöku og öðru námsmati stendur. Við brot á þessum ákvæðum skal vísa nemendum frá prófi þegar í stað og leggja mál þeirra fyrir skólaráð, og geta viðurlög orðið brottvikning úr skóla.
Prófverkefni skulu liggja á borðum þegar próf hefst.
Kennarar skulu vera viðstaddir próf í þeirra námsgrein og koma a.m.k. tvisvar í hverja prófstofu meðan á prófi stendur.
Nemendur mega ekki yfirgefa prófstofu fyrr en eftir eina klukkustund. Þegar próftíma lýkur skulu nemendur skila prófverkefni til yfirsetumanns og yfirgefa prófstofu tafarlaust.
Í prófstofu er nemendum óheimilt að hafa með sér yfirhafnir, skólatöskur/plastpoka, farsíma, snjallúr, drykkjarföng, matvæli og aðra hluti en þá sem tilgreindir eru sem hjálpargögn í viðkomandi prófi.
Nemendur geta sótt um sérúrræði í prófum til námsráðgjafa fyrir auglýstan umsóknarfrest á hverri önn. Með sérúrræðum í prófum er t.d. átt við lengri próftíma, lituð próf, fámennar prófstofur og upplestur á prófum. Til þess að fá slík úrræði þarf mat námsráðgjafa um nauðsyn þess að liggja fyrir. Nánar HÉR.
Sé nemandi veikur á prófdegi skal hann tilkynna það á skrifstofu skólans áður en próf hefst.
Sjúkrapróf fara fram innan tveggja vikna frá reglulegu prófi í áfanganum. Þeir einir fá að taka sjúkrapróf sem leggja fram fullgild læknisvottorð um forföll sín eða gera á annan hátt grein fyrir þeim á fullnægjandi hátt, ef ekki er um veikindi að ræða. Sækja ber um sjúkrapróf til aðstoðarskólameistara.
Nemendur eiga rétt á að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennara á prófsýningardegi í lok prófatíðar á hverri önn. Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt strax. Ef nemandi telur að hann hafi verið beittur órétti getur hann kært niðurstöður prófs til skólameistara sem þá kallar til óháðan prófdómara. Niðurstaða prófdómara skal standa.
Einkunnir eru nemendum aðgengilegar í skólakerfinu Innu.
Nemandi, sem fellur á prófi, hefur rétt á að þreyta endurtökupróf að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau eru:
1. Nemandinn hefur náð a.m.k. 3 í samanlagðri einkunn í áfanganum.
2. Nemandi getur aldrei þreytt fleiri en tvö endurtökupróf á hverri önn.