Stjórnskipulag skólans
Skólameistari 100% staða
Aðstoðarskólameistari/áfangastjóri 100% staða
Skipan starfsemi skólans má sjá HÉR
Áfangakerfi
Segja má að áfangakerfið sem skólinn starfar eftir sé þríþætt: eininga-, anna- og áfangakerfi. Einingakerfið gerir skólanum kleift að meta nám í mismunandi námsgreinum til eininga sem eru jafngildar. Þannig er unnt að meta að jöfnu óskylt nám, en námslok miðast m.a. við að nemendur hafi lokið tilskildum einingafjölda. Skólaárinu er skipt niður í tvær jafnlangar annir, vorönn og haustönn. Námsgreinum er skipt niður í áfanga sem hver um sig tekur eina önn og lýkur með prófi eða öðru námsmati í annarlok. Aðalkostur áfangakerfisins er að það gerir skólastarfið sveigjanlegra, þannig að hægt er að koma til móts við nemendur með mismunandi áhugasvið, námsgetu og þarfir.
Námseiningar
Allt nám í skólanum er metið til námseininga. Áfangar eru merktir eftir ákveðnu kerfi og kemur einingafjöldi áfangans fram í þeirri merkingu. Allir nemendur sem innritast í skólann frá og með haustönn 2015 haga námi sínu skv. námskrá frá 2011. Aðrir nemendur fylgja ýmist þeirri námskrá eða eldri námskrá frá 1999.
Í eldri námskrá frá 1999 er auðkenni hvers áfanga sex stafa runa. Fremst er heiti námsgreinarinnar tilgreint með þremur bókstöfum, t.d. ÍSL fyrir íslensku. Næst kemur þriggja stafa tala; fremsta talan táknar hvar áfanginn er í röðinni innan námsgreinar, önnur talan greinir að áfanga með sama undanfara, þriðja talan segir til um einingafjölda áfangans. Áfangaheitið ÍSL103 táknar því að áfanginn er byrjunaráfangi í íslensku sem gefur 3 einingar.
Í námskrá frá 2011 samanstendur auðkenni hvers áfanga af 11 stafa runu. Fyrstu fjórir bókstafirnir vísa til námsgreinarheitis. Þannig vísar ÍSLE í áfangaheitinu ÍSLE2MB05(11) til íslensku. Næst kemur tölustafur sem vísar til þess á hvaða hæfniþrepi áfanginn er. Allir áfangar eru á þrepi 1, 2 eða 3 eftir því hversu miklar hæfnikröfur eru gerðar til nemandans í áfanganum. Því næst koma tveir bókstafir sem vísa til viðfangsefnis áfangans. Í þessu tilfelli vísar MB til þess að áfanginn fjallar um málnotkun og bókmenntir. Næstu tveir tölustafir vísa til einingafjölda í áfanga. Tölurnar 05 segja þannig til um að áfanginn sé 5 einingar. Tölustafirnir tveir í sviganum aftast vísa til þess í hvaða röð skuli taka áfangana. Fyrri tölustafurinn vísar til undanfara en sá seinni til jafngildisáfanga. Þannig þarf að taka áfanga sem merktur er (11) á undan áfanga sem merktur er (21) en ekki skiptir máli hvort áfangi sem merktur er (21) sé tekinn á undan eða eftir áfanga sem merktur er (22).
Námsannir
Hægt er að hefja nám og ljúka námi á hvorri önninni sem er, haustönn eða vorönn. Margir námsáfangar eru kenndir á báðum önnum en sumir eru aðeins kenndir aðra önnina eða sjaldnar og þurfa nemendur að taka tillit til þess við gerð námsáætlana. Skólinn birtir á hverri önn skrá yfir þá áfanga sem í boði verða á næstu önn eða önnum.
Námsbrautir – námsleiðir
Námsbrautir eru ekki sérstakar deildir í skólanum, heldur ákveðin samsetning námsáfanga, eins og kemur fram í brautarlýsingum í skólanámskrá. Sumir námsáfangar eru sameiginlegir mörgum námsbrautum og í þeim er nemendum raðað saman í kennsluhópa án tillits til þess á hvaða braut þeir eru skráðir. Eðlilegt er að hefja námið sem mest á sameiginlegum námsáföngum en af því leiðir að auðvelt er að skipta um braut eftir fyrstu námsannirnar án þess að það kosti tímatap eða óþægindi.
Til að ljúka námi af námsbraut þarf nemandi annars vegar að ljúka tilskildum einingafjölda í heild en hins vegar að ljúka tilteknum áföngum eða tilteknum einingafjölda í einstökum námsgreinum. Að auki þarf að gæta þess að samsetning náms uppfylli skilyrði um hæfniþrep:
Námstími
Í brautarlýsingum er gefinn upp meðalnámstími til að ljúka einstökum brautum en í reynd getur námstíminn orðið talsvert breytilegur, bæði skemmri og lengri en svarar til meðalnámstímans. Nemendur geta að nokkru ráðið námshraða sínum sjálfir með því að ljúka á hverri önn fleiri eða færri áföngum en gert er að jafnaði. Misjafn undirbúningur nemenda í upphafi getur haft áhrif á það hversu vel þeim miðar áfram í náminu.
Kennslustundir og stokkatafla
Kennt er í tveimur samliggjandi 45 mínútna löngum kennslustundum. Í íþróttum er þó kennt í 40 mínútur. Frímínútur eru 5 eða 10 mín og matarhlé er 40 mínútur. Á föstudögum eru svokallaðar vinnustundir en þá vinna nemendur að þeim verkefnum sem fyrir liggja í áföngum hverju sinni. Fjöldi vinnustunda í viku er í samhengi við fjölda áfanga sem nemandi er skráður í. Reglan er að ein vinnustund fylgir hverjum áfanga, þó ekki einnar einingar áföngum, s.s. íþróttum og námstækni og hvatningu. Nemandi er aldrei skráður í fleiri en 4 vinnustundir þrátt fyrir að hann sé skráður í fleiri áfanga.
Námsáætlanir
Nemendur fá námsáætlanir í öllum áföngum í upphafi hverrar annar. Þar koma fram ýmsar hagnýtar upplýsingar um markmið áfangans, vinnuframlag og væntingar til nemenda, kennslugögn, kennsluaðferðir, námsmat og tímaáætlun. Nemendur skipuleggja nám sitt í samræmi við námsáætlanir. Kennarar bera ábyrgð á að kennsluáætlanir séu gerðar í öllum áföngum.
Stundatöflur nemenda
Í áfangakerfinu eru engir bekkir á sama hátt og í grunnskólanum heldur er útbúin sérstök stundatafla fyrir hvern nemenda. Á fyrstu námsönn gera nemendur námsáætlun fyrir allan námstímann sem getur tekið breytingum. Á hverri önn er svokallaður valdagur og ganga nemendur þá frá vali á námsáföngum fyrir næstu önn. Lögð er fram skrá yfir þá áfanga sem í boði eru og verður valið að miðast við þá skrá auk þess sem nemandinn verður að taka tillit til námsbrautar og gæta þess að brjóta ekki reglur um undanfara.
Val nemenda er bindandi og verða ekki gerðar breytingar á töflu hans eftir á nema brýna nauðsyn beri til. Gefinn er ákveðinn frestur til töflubreytinga í upphafi hvorrar annar og er töflum ekki breytt eftir að hann er runninn út. Nemendur geta þó sagt sig úr áfanga á fyrri hluta annar.
Undanfarar
Við val á námsáföngum skulu nemendur gæta þess að undanfarareglur séu virtar. Ekki er heimilt að hefja nám í áfanga án þess að hafa lokið áður þeim áföngum sem tilgreindir eru sem undanfarar í námskrá. Sjá nánar HÉR.