Á skólaárinu 2019-2020 verður lögð áhersla á að efla enn frekar leiðsagnarmat og fjarnám við skólann auk þess sem boðið verður upp á heilsunuddbraut í samstarfi við Fjölbrautaskólann við Ármúla.
Leiðsagnarmat
Stefnt er að enn frekari eflingu leiðsagnarmats í samræmi við áherslur í Aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011. Haldið verður áfram með vörðuvikur sitt hvorum megin miðannarmats. Í fyrri vörðuvikunni, sem haldin verður 16.-20. september, munu kennarar boða til sín nemendur í öllum áföngum þar sem farið verður yfir námslega stöðu og líðan í áfanga. Til að efla kennara í beitingu viðtala var þeim boðið upp á námskeið í lok vorannar 2019. Miðannarmat er mikilvægur þáttur af leiðsagnarmatinu. Nemendur fara í viðtöl hjá umsjónakennurum sínum í kjölfar miðannarmats sem verður 7.október þar sem farið er yfir stöðuna og leiðir til úrbóta ræddar sé þess þörf.
Fjarnám
Boðið er upp á fjarnám í flestum bóklegum áföngum við skólann á skólaárinu 2019-2020. Í öllum fjarnámsáföngum verður tekin upp sú regla að það verður taktur í verkefnaskilum áfangans. Nemendur fá góðar og haldbærar upplýsingar um verkefnin og verkefnaskil. Með þessu móti skapast ákveðinn takur í náminu sem mikilvægur er fyrir þá nemendur sem ekki sækja kennslustundir með reglulegum hætti. Lögð verður áhersla á að efla markaðssetningu fjarnámsins og að kynna það betur út á við.
Nám á heilsunuddbraut
Á skólaárinu 2019-2020 verða fyrstu verklegu fög heilsunuddbrautar kennd við Framhaldsskólann á Húsavík. Markmið náms á heilsunuddbraut er að gera nemandann hæfan í starfsgrein sinni og þjálfa þá verklegu færni sem er grunnur starfsins. Nám á heilsunuddbraut er 200 framhaldsskólaeiningar og eru námslok á 3. hæfniþrepi. Skipulag samstarfs FSH og FÁ er með þeim hætti að hluti námsins fer fram í dagskóla, fjarnámi eða í lotum frá FSH en hluti námsins fer fram í fjarnámi frá FÁ. Markmið skólans er að efla þetta nám enn frekar.