Á opinni stúdentsbraut er áhersla lögð á að nemandi geti valið sér áfanga eftir eigin áhugasviði. Námsbrautin er ekki hugsuð sem lykill að fyrirfram ákveðnum greinum á háskólastigi heldur er það í höndum nemandans sjálfs að gera nám sitt þannig úr garði að það samræmist áformum hans um áframhaldandi nám. Mikilvægt er því að nemandinn geri sér grein fyrir því hvers konar nám og störf hann hyggur á í framhaldinu þegar hann velur sér áfanga á brautinni og leiti aðstoðar hjá námsráðgjafa eða öðrum fagaðila við það verkefni.
Forkröfur
Til þess að geta innritast á opna stúdentsbraut þarf nemandi við lok grunnskóla að hafa náð hæfnieinkunn B í íslensku og ensku og C í stærðfræði. Til þess að geta hafið nám á öðru hæfniþrepi í íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla í þessum greinum. Að öðrum kosti hefur nemandi nám sitt í þessum greinum á fyrsta hæfniþrepi.
Skipulag
Til að teljast hafa lokið almennri stúdentsbraut þarf nemandi að ljúka 201einingum. Gert er ráð fyrir að námstími sé u.þ.b. 3 ár og að nemandi ljúki 33-34 einingum á önn. Nemandinn tekur 111eininga kjarna sem sameiginlegur er með öllum stúdentsbrautum skólans. Að öðru leyti er val á brautinni óbundið að því gefnu að nemandi taki a.m.k. 26 einingar í áföngum á hæfniþrepi 2 og 9 einingar í áföngum af hæfniþrepi 3. Nám á opinni stúdentsbraut er bóklegt að grunni til en þó er nemandanum frjálst að velja verklegar greinar sem í boði eru hverju sinni og fá þær metnar sem óbundið val. Mestur hluti námsins fer fram innan veggja skólans
Námsmat
Námsmat á opinni stúdentsbraut er fjölbreytt. Gert er ráð fyrir að leiðsagnarmati sé beitt í sem mestum mæli á brautinni en í því felst að nemandi fái með reglulegum og skipulegum hætti upplýsingar um hvernig hann stendur í náminu. Í upphafi hvers áfanga skal nemanda kynnt námsáætlun þar sem fram kemur hvernig námsmati skuli háttað í áfanganum. Nánari útfærsla á tilhögun námsmats er í höndum kennara í hverjum áfanga. Frekari upplýsingar um námsmat er að finna á heimasíðu skólans.
Reglur um námsframvindu
Um alla áfanga á opinni stúdentsbraut gildir að nemandi þurfi að ná lágmarkseinkunninni 5 til að teljast hafa staðið þá. Í þeim tilfellum sem áfangi hefur undanfara þarf nemandi að standast hann til þess að geta hafið nám í næsta áfanga á eftir. Gert er ráð fyrir að nemandi ljúki að jafnaði 33-34 einingum á önn en nemanda er frjálst að taka fleiri eða færri einingar á önn eftir getu og áhuga. Ekki er sett skilyrði um að nemandi þurfi að ljúka ákveðnum einingafjölda á önn til þess að geta flust milli anna.
Hæfnisviðmið
- beita skapandi hugsun við lausnamiðað nám
- leysa verkefni af hendi á markvissan og sjálfstæðan hátt
- beita gagnrýninni hugsun við að afla fullnægjandi raka fyrir skoðunum sínum og annarra
- gera sér grein fyrir því hvaða lífsvenjur eru uppbyggilegar fyrir andlegt og líkamlegt heilbrigði
- gera sér grein fyrir réttindum sínum og skyldum í þjóðfélagi jafnréttis, lýðræðis og sjálfbærni
- gera sér grein fyrir eigin styrkleikum og veikleikum í námi
- axla ábyrgð á eigin námi
- lesa, miðla, útskýra og rökræða fræðilegt efni á íslensku
- uppfylla strangar kröfur um meðferð heimilda og framsetningu fræðilegs texta
- skilja margvíslega texta og eiga flókin samskipti á ensku
- skilja einfalda texta og eiga einföld samskipti á tveimur tungumálum til viðbótar
- skilja og eiga samskipti um tölulegar upplýsingar að því marki sem nauðsynlegt er í því námi og þeim störfum sem markið er sett á í framtíðinni
- gera sér grein fyrir því hvaða þekking, leikni og hæfni er nauðsynleg til þess að eigin framtíðaráform rætist.