Valdimar minningarorð

Í dag kveðjum við frá Húsavíkurkirkju Valdimar Stefánsson kennara við Framhaldsskólann á Húsavík.
Valdimar kom til starfa við Framhaldsskólann á Húsavík haustið 2006. Fyrstu árin kenndi hann sögu og stærðfræði á Starfsbraut og aðstoðaði nemendur á Almennri braut við heimanám. Valdimar náði afskaplega vel til nemenda, hann skildi þá svo vel og þeir báru virðingu fyrir honum og fannst gott að leita til hans.

Á stúdentsbrautunum kenndi Valdimar sögu, stærðfræði, heimspeki, listir og landafræði. Hann var víðlesinn, átti mikið bókasafn og drakk í sig fjölbreytta þekkingu á ýmsum sviðum. Það kom nemendum hans til góða, því hann var brunnur fjölþættrar þekkingar sem þau jusu úr og ekki var verra þegar þeim tókst að ná honum í spjall utan námsefnis. Valdimar var ekki hávær kennari, hann þurfti þess ekki. Nemendur hans dýrkuðu hann. Hann naut þess að fræða nemendur og hann þjálfaði Gettu betur lið Framhaldsskólans á Húsavík árum saman.

Valdimar var góður samstarfsmaður, hjálpfús, skemmtilegur, rólyndur, launfyndin og það kom þetta glott á andlit hans, þegar við samstarfsmenn hans vorum að meðtaka húmorinn frá honum. Hann hafði sterka siðferðiskennd, var sanngjarn, ljúfur, en fastur fyrir þegar það átti við. Hann tók virkan þátt í kjarabaráttu kennara, sat í samstarfsnefnd skólans og var hluti af innra matsteymi skólans.

Valdimar flíkaði ekki einkalífi sínu, bjó með sinni konu, orti ljóð og skrifaði smásögur. Listin, list orðsins var í blóði hans.

Við samstarfmenn hans dáðumst að æðruleysi hans og yfirvegun í erfiðum veikindum, krabbanum sem felldi hann að lokum. Við söknum hans og erum þakklát allt samstarfið og félagsskapinn, ekki síst fyrir ferð okkar saman til Lundar í Svíþjóð og Kaupmannahafnar fyrir tveimur árum, þar sem við fræddumst um norrænt skólastarf og nutum við menningar og matar beggja landa. Það var yndislegt að finna þá hvað Valdimar varð ánægður með að komast upp í Sívalaturn og geta horft þaðan yfir kóngsins Kaupmannahöfn.

Fyrir hönd Framhaldsskólans á Húsavík þakka ég á skilnaðarstundu fyrir vandað, mikilvægt og afar gott starf einstaks kennara.
Ég votta fjöldskyldu hans hjartans dýpstu samúð.

Blessuð sé minning þín, kæri vinur.

„Og lækjanna friður sé með þér
og friður um höfin blá"
KVI

Valgerður Gunnarsdóttir
skólameistari