Kæru nemendur, foreldrar og forráðamenn.
Undanfarnar vikur hefur skólastarf í framhaldsskólum landsins verið með óvenjulegum hætti, eins og þið eruð öll meðvituð um. Nemendur hafa verið í fjarnámi og stundað nám í gegnum netið, kennsluvefi, síma og einnig í myndmiðlinum Teams að einhverju leyti. Það hefur í langflestum tilfellum gengið vel og kennarar verið í mjög þéttu sambandi við sína nemendur. Umsjónarkennarar, námsráðgjafi og aðstoðarskólameistari hafa einnig haft samband við einstaka nemendur eftir þörfum. Við þessar aðstæður er mjög mikilvægt að gott samband sé við nemendur og heimilin og því viljum við þakka ykkur fyrir góða vinnu og viðtökur. Allt miðar að því að nemendur fái eins góða aðstoð við sitt nám og mögulegt er.
Í ljósi þess að nú hefur menntamálaráðherra í samráði við ríkisstjórn ákveðið að skólahaldi verði haldið áfram með þessum hætti fram til 4. maí n.k. höfum við undirbúið áframhald fjarkennslunnar með nemendum, sem miðar að enn þéttara sambandi milli nemenda og kennara.
Því hafa verið settar upp stundatöflur, sem hér fylgja með og hægt er að nálgast í INNU um páskana. Allir nemendur hitta sinn kennara í fjarfundi einu sinni í viku, samkvæmt þessum stundatöflum. Nemendum er skylt að mæta í alla tíma, sem fara fram í gegnum myndmiðilinn Teams.
Öllum nemendum hafa verið sendar upplýsingar og aðgengi að Teams og hvernig það forrit er notað. Þessar upplýsingar voru sendar í tölvupósti í vikunni.
Þar sem skólastarfið hefst á miðvikudegi eftir páska, verður mánudagskennsla 15. apríl, þriðjudagskennsla 16. apríl og miðvikudagskennsla 17.apríl, en bara þá viku, eins og þið sjáið á myndinni hér fyrir neðan.
Vikuna á eftir, frá 20. apríl eru kennslustundir í samræmi við stundatöflu, mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga, fram til 4. maí, sjá meðfylgjandi myndir.
Það er mikil áskorun, bæði fyrir nemendur og kennara, að vinna á þennan hátt. Við stjórnendur erum afar stolt af því hve hratt og vel tókst að breyta skólastarfinu til þess sem nauðsynlegt var, í þessum erfiðu aðstæðum.
Í dag hefst formlegt páskaleyfi sem stendur til 15. apríl hjá nemendum. Það er mjög, mjög mikilvægt fyrir námsárangur nemenda, að þeir komi af fullum krafti aftur til náms strax að páskaleyfinu loknu.
Kennarar, umsjónarkennarar og námsráðgjafi eru tilbúnir að leggja nemendum lið og munu hafa reglulegt samband, ekki síst við þá nemendur sem hafa ekki verið nógu virkir í náminu hingað til. En nemendur verða líka að svara tölvupóstum og hringingum frá kennurum og starfsfólki skólans.
Kæru nemendur
Við berum hag ykkar fyrir brjósti. Munið að rútína í daglegu lífi, reglulegur svefn, hollt mataræði og nóg hreyfing skipta öllu máli við þessar aðstæður. Þið hafið brugðist vel við þessum breyttu aðstæðum og staðið ykkur vel. Njótið páskanna með ykkar nánasta fólki og farið eftir tilmælum landlæknis, sem hvetur okkur öll til að ferðast innan húss þessa páska.
Gleðilega páska