Þann 13. febrúar síðastliðinn tók Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari við verðlaunum fyrir hönd Framhaldsskólans á Húsavík fyrir 4. sæti í stofnun ársins 2024 fyrir ríkisstofnanir með 5-39 starfsmenn. Alls eru 55 stofnanir sem taka þátt í þeim flokki.
Framhaldsskólinn á Húsavík varð einnig í 4. sæti yfir allar ríkisstofnanir sem alls er 140.
Hér má sjá samantektar skýrslu Sameykis um stofnun ársins 2024
Eins og segir á heimasíðu Sameyki: Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og fjölmargra annarra stofnana en hún nær til um 35.000 manns á opinberum vinnumarkaði. Tilgangur með vali á Stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi. Að lokum veitir könnunin aðhald til hagsbóta fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila.
Á hverju ári eru valin þemu sem Sameyki í samvinnu við fulltrúa frá Reykjavíkurborg og ríki velja til viðbótar við þær spurningar sem mynda niðurstöður fyrir Stofnun ársins. Að þessu sinni voru spurningar um hvort fólk væri stolt af starfinu sínu og tilgangi þess, um starfslok og yfirfærslu þekkingar, um nýliðaþjálfun og um einelti, kynferðislega áreitni og kynbundna áreitni og ofbeldi. Niðurstöður úr þessum spurningum verða kynntar síðar.
Við í Framhaldsskólanum á Húsavík erum virkilega stolt af okkar árangri og stolt af okkar vinnustað sem heldur áfram að dafna, vaxa og þróast í jákvæða átt.

Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík ásamt öðrum vinningshöfum í Stofnun ársins 2024.