Öruggara hinsegin samfélag á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 16. október síðastliðinn hélt félagið Hinsegin lífsgæði fund undir yfirskriftinni Lýðheilsa hinsegin ungmenna á landsbyggðinni. Á fundinn mætti starfsfólk Framhaldsskólans á Húsavík, Framhaldsskólans á Laugum og Borgarhólsskóla.

Davíð Samúelsson verkefnastjóri Hinsegin lífsgæða sá um fundarstjórn. Ýmsir aðilar komu á fundinn og héldu erindi ýmist í raunheimum eða í gegnum fjarfundarbúnað t.d. Dr. Bergljót Þrastardóttir, Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, Ynua Suzanne Joanne, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, Jackie Ellis og Mars.

Þær spurningar sem verið var að kanna voru, hvernig byggjum við upp öruggara skólaumhverfi fyrir hinsegin ungmenni á landsbyggðinni? Hvernig getum við bætt skólaumhverfið, unnið gegn jaðarsetningu og stuðlað að meiri inngildingu hinsegin nemenda? Hvernig getum við aukið þann stuðning sem hinsegin nemendur og fjölskyldur þurfa á að halda í skólum landsbyggðarinnar.

Skemmst er frá því að segja að mikil ánægja var með fundinn og sköpuðust góðar umræður.

Framhaldsskólinn á Húsavík þakkar Davíði og öðrum sem komu að fundinum kærlega fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga umræðuefni.