Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að Framhaldsskólinn á Húsavík varð í 1. sæti fyrir flestar mínútur og 1. sæti fyrir flesta daga í Lífshlaupinu 2021.
Við erum afar stolt af okkar fólki.
Nemendur skólans eru einstaklega duglegir við að stunda daglega hreyfingu og skrá hana niður á síðu Lífshlaupsins undir leiðsögn Selmdísar Þráinsdóttur sem heldur utan um verkefnið. Framhaldsskólinn á Húsavík hefur oft unnið til verðlauna í Lífshlaupinu en verkefnið er á landsvísu.
Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Í ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu er börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í minnst 60 mínútur á dag og fullorðnum í minnst 30 mínútur á dag.
Í ár var slegið þátttökumet en alls tóku 22.635 landsmenn þátt. Það eru 4.441 fleiri en í fyrra og er almenningsíþróttasvið ÍSÍ ótrúlega ánægt með þessa aukningu því hún segir okkur að Lífshlaupið skiptir máli.
Við óskum nemendum okkar innilega til hamingju með sigurinn !