Þann 17.september síðastliðinn, sóttu tveir fulltrúar nemenda við Framhaldsskólann á Húsavík ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði, þau Hjördís Óskarsdóttir og Þorri Gunnarsson. Ráðstefnan fór fram í Silfurbergi í ráðstefnu- og tónlistarhúsinu Hörpu. Yfirskrift ráðstefnunnar var Lýðræðisleg áhrif- Hvar, hvenær og hvernig getur ungt fólk haft áhrif. Ráðstefnan var samræðuvettvangur ungs fólks á aldrinum 16 - 25 ára. Markmið og tilgangur hennar var að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi og gefa ungu fólki verkfæri og þjálfun til þess að auka áhrif sín í nær samfélaginu.
Meðal gesta í umræðuhópum ráðstefnunnar voru ýmsir þingmenn, auk Guðmundar Inga Kristinssonar, þingflokksformanns Flokks fólksins, Oddnýjar G. Harðardóttir, þingflokksformanns Samfylkingarinnar og þingmaður og Lilju Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Meðal þátttakenda í pallborðsumræðum voru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.
Það er alltaf gaman að sjá að nemendur okkar hafi raddir og láti til sín taka.