Dagana 19.-27. nóvember næstkomandi stendur evrópsk nýtnivika yfir en markmið átaksins er að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs.
Þemað er sjálfbærni og hringrás textíls undir slagorðinu Sóun er ekki lengur í tísku!
Textíliðnaðurinn er einn sá umfangsmesti í heimi og honum fylgir gríðarleg efnanotkun, ferskvatnsmengun og losun gróðurhúsalofttegunda svo það skiptir miklu að draga úr sóun textíls.
Í Framhaldsskólanum á Húsavík er unnið markvisst að því að bæta umhverfið og minnka myndun úrgangs í gegnum græn skref sem við vinnum í samstarfi við Umhverfisstofnun. Á þeirri vegferð erum við til að mynda að draga úr útprenti, endurnýta ljósritunarpappír, notum einungis hleðslubatterí, flokkum allt rusl og spörum orku eftir fremsta megni. Eins eru öll vöru innkaup vel ígrunduð.
Við vonumst til þess að Norðurþing hefji vinnu við græn skref og stuðli þannig að samlegðaráhrifum í umhverfismálaflokknum í okkar samfélagi.
Við í Framhaldsskólanum á Húsavík hvetjum alla nemendur, allt starfsfólk og íbúa Norðurþings til að versla sér föt og annað heimilistengt í Rauðakrossbúð Húsavíkur sem staðsett er á Vallholtsvegi 3. Eins hvetjum við til þess að losa sig við föt sem ekki eru í notkun í safngáma Rauðakrossins sem staðsettir eru á Vallholtsveg 8. Einnig eru sölusíður á Facebook og nytjamarkaðir sniðug lausn til að gefa textíl og öðru nýtt líf.
Kynnið ykkur nýtnivikuna hér.