Dagur gegn einelti

Framhaldsskólinn á Húsavík bauð nemendum upp á fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur í síðustu viku í tilefni þess að dagur gegn einelti var 8. nóvember. Dagur þessi er helgaður baráttunni gegn einelti og er hann haldinn ár hvert. Við í FSH vildum að sjálfsögðu taka þátt í deginum á einhvern hátt og ákváðum að gera það með því að fá Vöndu Sigurgeirsdóttur til að vera með fyrirlestur. Fyrirlesturinn fór fram á Zoom þar sem aðstæður leyfðu ekki að Vanda kæmi til okkar í skólann.
Vanda er sérstaklega skemmtilegur fyrirlesari en hún hefur allan sinn starfsferil starfað með börnum og fullorðnum að eineltis- og samskiptamálum. Vanda er einnig fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu og hefur starfað sem knattspyrnuþjálfari í um 30 ár.

Í fyrirlestrinum fjallaði hún um mikilvægi jákvæðra samskipta og hvað það er mikilvægt að við horfum í kringum okkur og fylgjumst með hvort það eru einhverjir skólafélagar týndir eða gleymdir. Hún talaði um hlutverk krakkanna að líta í kringum sig eftir þessum krökkum og bjóða þeim að vera með. Eins talaði hún um að einelti væri oft mjög falið og við sjáum oftast bara toppinn á ísjakanum. Eins vitum við að vinátta er sérlega mikilvæg fyrir alla en hún eykur þroska, kennir félagsfærni, dregur úr vanlíðan og gefur lífinu gildi. Á sama hátt getur félagsleg einangrun og vinaleysi verið afskaplega sársaukafull lífsreynsla sem hefur jafnvel langvarandi neikvæð áhrif. Hér er tengill á meiri fróðleik frá Vöndu https://www.heimiliogskoli.is/wp-content/uploads/2017/11/HS_einelti_handbo%CC%81k_net.pdf

 

Elín Pálmadóttir

Námsráðgjafi