Bréf til nemenda, foreldra/forsjáraðila vegna vitundarvakningar gegn ofbeldi.

Kæru foreldrar og forráðamenn og kæru nemendur.

Miklar áhyggjur eru af auknum vopnaburði og ofbeldi meðal barna og ungmenna og hafa alvarleg atvik undanfarið ýtt undir þann ótta. Við þessari þróun er mikilvægt að bregðast strax.

Framhaldsskólinn á Húsavík áréttar að vopnaburður á almannafæri er bannaður samkvæmt lögum. Ef nemandi verður uppvís að því að bera vopn verður málið undantekningalaust tilkynnt til lögreglu og til barnaverndarþjónustu, ef um barn er að ræða og samband haft við foreldra og forráðamenn. Ofbeldismál sem upp koma innan skólans eða viðburðum í hans nafni verða sett í viðeigandi ferli og unnin eftir viðbragðsáætlun sem finna má á heimasíðu skólans, ásamt skólareglum. Við hvetjum foreldra og nemendur til að kynna sér þær.

Ákveðnir þættir eru verndandi gegn áhættuhegðun barna. Samvera foreldra og barna, að útivistartími sé virtur, að fylgst sé með netnotkun barna, að börnum sé sýnd umhyggja og þeim séu sett skýr mörk og að foreldrar þekki vini barna sinna og foreldra þeirra. Allt þetta eru mikilvægir þættir til varnar áhættuhegðun. Jafnframt felst mikið forvarnargildi í þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og mikilvægt er að foreldrar séu virkir þátttakendur í foreldrastarfi.

Samstarf lögreglu, sveitarfélaga, félagsþjónustu, skólanna og foreldra er mikilvægt til að sporna gegn þessari þróun. Það vindur enginn einn ofan af þróuninni, en samtakamáttur okkar allra er sterkur og mun skila árangri.

Mikilvægt er að foreldrar taki þátt í að bregðast við þessari þróun og geri allt sem í sínu valdi stendur til að koma í veg fyrir ofbeldi og vopnaburð. Við hvetjum foreldra til að ræða við börnin sín um hvernig við sköpum í sameiningu öruggara samfélag, þ. á m. um að það sé ólöglegt að ganga um með vopn, hverjar afleiðingar ofbeldis geta verið og kynna fyrir þeim hvert þau geta leitað að stuðningi.

Þá er vakin athygli á því að nemendur og foreldrar geta leitað stuðnings og ráðgjafar innan skólans, svo sem hjá umsjónarkennara, stjórnendum, tengiliði á grundvelli farsældarlaga eða náms- og starfsráðgjafa. Þá bendum við á Hjálparsíma Rauða Krossins 1717 og netspjall á www.1717.is og á www.112.is.

Þá bendum við á að á öllum hvílir tilkynningarskylda til barnaverndar ef ástæða er til að ætla að barn verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Í sameiningu getum við stuðlað að öruggara samfélagi og aukinni farsæld. Við hvetjum ykkur til að hafa samband við skólann ef einhverjar spurningar vakna.

Með hlýju og virðingu
Valgerður Gunnarsdóttir
Skólameistari