Kynning á bókasafni

Bókasafnið þjónar fyrst og fremst nemendum, kennurum og starfsfólki Framhaldsskólans á Húsavík.

Safnkostur: Á safninu er að finna bækur, tímarit, myndbönd, DVD diska og fleiri gögn, sem aðallega tengjast námsgreinum skólans eða snerta starfsemi hans á einhvern hátt. Skráðar hafa verið tæplega 5000 bækur og annað efni.

Tölvuskrá: Allt efni safnsins er tölvuskráð og nú er hægt að finna stærstan hluta safnkostsins í Gegni.is, sem er samskrá íslenskra bókasafna á vefnum. Í Gegni.is er meðal annars hægt að sjá hvort ákveðin bók sé til í bókasafni FSH og hvort hún sé í láni eða staðsett í hillu.

Það kostar ekkert að taka bækur eða annað efni að láni og nemendur þurfa engin bókasafnskort. Það eina sem þarf að gera er að gefa upp kennitölu hjá bókaverði þegar bók eða önnur gögn eru tekin að láni.

Öll útlán þarf að tölvuskrá.

Ef starfsmaður er ekki við þegar taka á bók að láni er viðkomandi vinsamlega beðinn um að skrifa nafn sitt og kennitölu á þar til gerða miða sem staðsettir eru á afgreiðsluborði og einnig nafn höfundar og bókar eða númerið á strikamiðanum sem er aftan á bókinni (merktur bókasafni Framhaldsskólans á Húsavík), og skilja miðann eftir á borði bókavarðar.

Útlánatími er eftir samkomulagi við bókavörð. Flestar bækur og annað safnefni er lánað út, en kennslubækur og orðabækur eru þó aðeins lánaðar einn dag í einu eða yfir helgi. Handbækur sem mest eru notaðar eru aðeins lánaðar innan skólans.

Aðstaða: Á bókasafninu eru 24 sæti. Þar eru staðsettar 4 tölvur fyrir nemendur, litaprentari og myndriti (skanner). Prentarinn sem nemendur hafa aðgang að er staðsettur fyrir framan dyr bókasafnsins og heitir fsh.vax_bokasafn. Hann þarf að velja sérstaklega þegar prentað er út. Ljósritunarvél sem nemendur hafa aðgang að er þar staðsett.

Heimildaleit: Bókasafnsfræðingur leiðbeinir notendum um safnið og aðstoðar við heimildaleit vegna verkefna og ritgerða.

Á heimasíðu bókasafnsins (www.fsh.is) eru ýmsir tenglar í alfræðirit, gagnasöfn og vefsíður sem geta komið sér vel við ritgerðavinnu og við námið almennt. Á bókasafninu geta nemendur líka leitað í gagnasafni Morgunblaðsins, en sérstakt lykilorð þarf til að skoða síðustu þrjá árganga Moggans (bókavörður er með lykilorð).


Millisafnalán: Góð þjónusta er aðalmarkmiðið. Ef tiltekið rit eða efni er ekki að finna í eigu bókasafnsins, er lögð áhersla á að útvega það í millisafnaláni eða á annan hátt fyrir notendur safnsins. Á sama hátt fá aðilar utan skólans bækur og annað efni að láni hjá bókasafni FSH, eftir því sem tök eru á.


Neysla matar og drykkjar er algjörlega bönnuð við tölvurnar.