Nemendafélag FSH

Viðbragðsáætlun gegn ofbeldi, einelti og annarri ótilhlýðilegri háttsemi

1. Tilgangur

Verklag þetta lýsir viðbrögðum við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi til samræmis við stefnu Framhaldsskólans á Húsavík gegn einelti og kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi.

2. Gildissvið

Verkferillinn gildir um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi og aðra ótilhlýðilega háttsemi, í skólanum og á viðburðum sem haldnir eru á hans vegum.

3. Kvörtun/tilkynning

Starfsmaður sem hefur orðið fyrir eða hefur vitneskju um einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað skal upplýsa aðila í viðbragðsteymi skólans. Kvartanir eða ábendingar vegna ofbeldis geta hvort heldur sem er verið munnlegar eða skriflegar. Mælt er með því að þær séu skriflegar og notast sé við eyðublaðið „Tilkynning um meint einelti,ofbeldi,kynferðislega eða kynbundna áreitni á vinnustað“.

Ef starfsmaður treystir sér ekki til að leita til skólameistara FSH eða annarra fulltrúa í viðbragðsteymi skólans getur hann leitað til samstarfsmanns sem hann treystir, trúnaðarmanns, tengiliðs innan stéttarfélags eða tengiliðs innan stéttarfélags.

Í samráði við þolanda er ákveðið hvort bregðast skuli við með óformlegri málsmeðferð eða hvort lög og reglur á sviði vinnuverndar krefjist formlegrar málsmeðferðar. Stjórnanda ber í öllum tilvikum að bregðast við og uppfylla þær skyldur sem hvíla á atvinnurekanda samkvæmt lögum og reglum, m.a. til að koma í veg fyrir að ótilhlýðileg hegðun endurtaki sig á vinnustaðnum.

Á meðan á málsmeðferð stendur ber að notast við hugtökin „meintur þolandi“ og „meintur gerandi“.

Við FSH er starfandi viðbragðsteymi sem samanstendur af náms- og starfsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðingi, skólameistara (eða staðgengli hans) og öryggistrúnaðarmaður.

4. Málsmeðferð

Allar kvartanir vegna eineltis, ofbeldis, kynferðislegrar eða kynbundinnar áreitni skulu skráðar og rannsakaðar og veita skal meintum þolanda stuðning eftir bestu getu. Flýta skal málsmeðferð sem frekast er unnt. Komi í ljós að mál sé ekki á rökum reist þarf að útskýra ástæður þess. Falskar ásakanir eru litnar alvarlegum augum.

Meintur þolandi og meintur gerandi hafa á öllum stigum málsmeðferðar rétt til þess að hafa trúnaðarmann, öryggistrúnaðarmann, samstarfsfélaga og/eða annan þann aðila sem þeir treysta með sér í viðtöl. Jafnframt geta meintur þolandi og gerandi leitað til og ráðfært sig við trúnaðarmann og/eða öryggistrúnaðarmann hvenær sem er í ferlinu.

Við meðferð máls skal yfirmaður sýna varfærni og nærgætni í aðgerðum sínum með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi starfsfólks og nemenda í huga, m.a. með því að veita ekki óviðkomandi aðilum upplýsingar um mál og tryggja að utanaðkomandi aðilar sem kunna að koma að meðferð máls geri slíkt hið sama.

4.1 Óformleg málsmeðferð
Óformleg málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá meintum þolanda og meintum geranda og þeim veittur stuðningur með trúnaðarsamtali og/eða ráðgjöf. Skólameistari eða staðgengill hans er ábyrgur fyrir óformlegri málsmeðferð, nema þeir eigi beina aðild að máli. Haft er samband við forráðamenn ólögráða einstaklings hvort sem um er að ræða geranda eða þolanda.

Ef meintur þolandi óskar eftir óformlegri málsmeðferð, og skólameistari telur heimilt að verða við því, er upplýsinga leitað hjá viðkomandi og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf í samráði við skólameistara eða staðgengil hans. Gripið er til viðeigandi aðgerða í samráði við meintan þolanda. Aðrir innan vinnustaðarins eru ekki upplýstir um málið.

Eftirfylgni miðar að því að tryggja bætta líðan málsaðila og koma í veg fyrir að meint eineltis- eða áreitnihegðun haldi áfram eða endurtaki sig. Tíðni eftirfylgni getur átt sér stað samkvæmt samkomulagi milli aðila málsins en miðað skal við eftirfarandi eftirfylgni:

Eftir einn mánuð boðar skólameistari eða staðgengill hvern málsaðila fyrir sig á fund til að kanna stöðu mála. Slíkt eftirlit fer einnig fram eftir þrjá mánuði. Komi í ljós að einelti, ofbeldi, kynferðisleg eða kynbundin áreitni eða vanlíðan sé enn fyrir hendi skal málsaðilum tilkynnt að málinu verði vísað í formlega málsmeðferð.

4.2 Formleg málsmeðferð
Skólameistari eða staðgengill hans er ábyrgur fyrir formlegri málsmeðferð og tekur þátt í málsmeðferð, nema hann eigi beina aðild að máli. Virkja skal viðbragðsteymi skólans.

Séu atvik það alvarleg að um saknæmt brot sé að ræða skv. hegningarlögum skal það kært til lögreglu, þó ekki nema með fullu samþykki meints þolanda.

Halda skal fundargerð fyrir hvern fund sem allir fundarmenn skulu undirrita því til staðfestingar að fundurinn hafi átt sér stað og að þær upplýsingar sem þar koma fram séu réttar.

Meintur gerandi sem er starfsmaður getur fengið tiltal, skriflega áminningu og leiðsögn. Hann getur líka verið færður til í starfi eða verið sagt upp störfum teljist brotið alvarlegt.  Meintur gerandi sem er nemandi getur fengið tiltal, leiðsögn eða vísað úr skóla teljist málið alvarlegt. Haft er samband við forráðamenn ólögráða einstaklings hvort sem um er að ræða geranda eða þolanda.  Málinu er fylgt eftir og rætt við aðila þess að ákveðnum tíma liðnum. Fylgst er með samskiptum aðila málsins. Eftir atvikum kunna verða gerðar breytingar á vinnubrögðum eða skipulagi á vinnustaðnum til að koma í veg fyrir endurtekningu á óæskulegum atvikum og aðstæðum.

Æskilegt er að bjóða báðum aðilum þann stuðning sem þeir gætu þurft hverju sinni.

4.2.1 Rannsókn á málsatvikum

 1. Ræða skal við meintan þolanda, fara vel yfir hans upplifun og lýsingu á atvikum og kanna hverjir hafi orðið vitni að tilgreindum atvikum að mati þolanda.
 2. Ræða skal við meintan geranda, fara yfir hans upplifun af tilgreindum atvikum og lýsingu hans á þeim og kanna hverjir hafi orðið vitni að atvikunum að mati geranda.
 3. Bjóða skal meintum þolanda og meintum geranda upp á ráðgjöf skólameistara eða staðgengils hans og eftir atvikum utanaðkomandi ráðgjafa.
 4. Ræða skal við meint vitni að atvikum þar sem við á, afla upplýsinga um þeirra upplifun af atvikum, og hverjir hafi verið viðstaddir. Vitni hafa rétt á að hafa fulltrúa með sér til stuðnings í viðtölum.
 5. Skrá skal niður allt sem tengist meðferð málsins og halda hlutaðeigandi starfsmönnum upplýstum meðan á meðferðinni stendur. Aðgangur að gögnum er takmarkaður við þá sem vinna að rannsókn málsins.
 6. Framkvæma skal mat á því hvað hafi átt sér stað. Greint skal hvort atvik falli undir einelti, áreitni eða ofbeldi samkvæmt um stefnu um FSH um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi og aðra ótilhlýðilega háttsemi.
 7. Ef niðurstaða greiningarinnar er að um samskiptavanda sé að ræða en ekki einelti, áreitni eða ofbeldi skal:
 • greiða úr samskiptum
 • gefa skýr skilaboð um kröfur til aðila málsins um samskipti á vinnustað.
 • viðhafa eftirlit og eftirfylgni.

4.2.2  Eftirfylgni – formleg málsmeðferð
Ef greining leiðir í ljós að um einelti, áreitni eða ofbeldi sé að ræða skal eftirfylgni miðar að því að tryggja bætta líðan málsaðila og koma í veg fyrir að einelti, áreitni og ofbeldi endurtaki sig. Skólameistari eða staðgengill hans ber ábyrgð á framvindu máls. Viðbragðsteymi skólans skal vera þátttakandi i málsmeðferðinni. Tíðni eftirfylgni getur átt sér stað samkvæmt samkomulagi milli aðila málsins en miðað er við eftirfarandi atriði:

 1. Fá aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa.
 2. Leggja mat á og taka ákvörðun um afleiðingar fyrir geranda.
 3. Gera áætlun um eftirfylgni ef gerandi verður áfram á vinnustaðnum til að koma í veg fyrir áframhaldandi hegðun. Láti gerandi ekki segjast og viðheldur hegðun sinni getur það leitt til uppsagnar.
 4. Tryggja stuðning við þolanda.
 5. Leggja mat á árangur aðgerða
 6. Meta á hvort þörf sé á breytingum á vinnustað, vinnubrögðum, vinnuskipulagi eða öðru til að draga úr líkum á endurteknum tilvikum.
 7. Halda stöðufundi eftir einn mánuð þar sem skólameistari eða staðgengill hans boðar hvern málsaðila fyrir sig á fund til að kanna stöðu mála. Slíkt eftirlit fer einnig fram eftir þrjá mánuði. Ef allt er í eðlilegum farvegi telst málsmeðferð formlega lokið. Komi í ljós að einelti, ofbeldi, kynferðisleg eða kynbundin áreitni eða vanlíðan eigi sér enn þá stað skal taka málið upp að nýju.

Ef málsatvik varða einstakling, sem ekki er starfsmaður eða nemandi FSH, en samskiptin eiga sér stað í tengslum við starfsemi skólans, skal skólameistari strax hefja athugun á málsatvikum. Að athugun lokinni skal gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að slíkt komi fyrir aftur. Aðgerðirnar geta m.a. falist í breytingum á vinnustaðnum, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi.

5. Meðhöndlun gagna

Allar upplýsingar um málsatvik skulu meðhöndlaðar sem trúnaðarmál og skulu skrifleg gögn varðveitt á öruggum stað á ábyrgð stjórnenda í samræmi við lög um persónuvernd. Hlutaðeigandi aðilum er veittur aðgangur að gögnum eftir því sem þeir óska og lög um persónuvernd heimila.

Þegar litið er svo á að máli sé lokið skal upplýsa hlutaðeigandi starfsmenn um það.

 

Júní 2018