Nemendafélag FSH

Árleg starfsáætlun

Á skólaárinu 2017 verður lögð áhersla á að efla leiðsagnarmat og fjarnám við skólann.

Leiðsagnarmat
verður eflt í því skyni að bæta námsárangur nemenda og minnka brottfall.  Aðgerðir verða eftirfarandi:

1.  Stokkatöflu breytt

  • Kennslustundir verða 45 mínútur í stað einnar klukkustundar áður. Vonast er til að með þessu móti verði nýting kennslustunda betri.
  • Í hverjum kennslustokki verða tveir samliggjandi tímar með frímínútum á milli.  Vonast er til að þetta fyrirkomulag leiði til meiri samfellu í kennslu.
  • Innleiddar verða svokallaðar vinnustundir en nemendum verður gert að mæta í þær í samræmi við fjölda áfanga sem þeir eru skráðir í.  Í vinnustundum fá nemendur tækifæri til að sinna þeim verkefnum sem fyrir liggja hverju sinni með aðstoð kennara.
  • Nemendum með vottorð og frjálsa mætingu verður gert að mæta í a.m.k. eina vinnustund á viku.  Með þessu móti verður hægt að fylgjast betur með mætingu og líðan nemenda.

2.  Vörðuvikur innleiddar

Svokallaðar vörðuvikur verða haldnar sitt hvorum megin við miðannarmat.  Miðannarmat fer fram um miðja önn, þ.e. í október á haustönn og mars á vorönn. Vörðuvikur verða haldnar september og nóvember á haustönn og febrúar og apríl á haustönn.  Í fyrri vörðuviku hverrar annar taka kennarar í hverjum áfanga nemendur sína til viðtals þar sem þeir ræða um stöðu og framtíðarhorfur í áfanganum.  Í seinni vikunni fer fram mat í samræmi við það sem kennara þykir hæfa í hverjum áfanga.  Sumir nemendur kunna þá að verða teknir aftur til viðtals en aðrir fá annars konar mat.  Vörðuvikur og miðannarmat mynda þannig ákveðinn ramma sem tryggir að hver nemandi fái með reglulegum og skipulegum hætti upplýsingar um hvernig hann er staddur í námi í hverjum áfanga.

Fjarnám
Boðið er upp á fjarnám í flestum bóklegum áföngum við skólann á skólaárinu 2017-2018.  Í öllum fjarnámsáföngum verður tekin upp sú regla að verkefni verða sett inn á Kennsluvef á mánudegi og skiladagur verður sunnudagur þar á eftir.  Með þessu móti skapast ákveðinn takur í náminu sem mikilvægur er fyrir þá nemendur sem ekki sækja kennslustundir með reglulegum hætti.