Prófareglur

Skrifleg próf í lok annar taka eina og hálfa klukkustund.

Nemendur skulu koma stundvíslega til prófs og athuga á auglýsingatöflu skólans hverju sinni hvar þeim er ætlaður staður í prófinu. Komi nemandi of seint til prófs skerðist próftími hans sem því nemur. Komi nemandi meira en einni klukkustund of seint til prófs hefur hann glatað rétti sínum til að þreyta prófið. Fjarvist úr prófi jafngildir falli í viðkomandi áfanga.

Við skrifleg próf má nota þau gögn sem tilgreind eru á forsíðum prófa. Kennarar skulu vera búnir að kynna fyrir nemendum sínum leyfileg hjálpargögn fyrir prófið. Nemendum er óheimilt að veita eða þiggja hjálp meðan á próftöku stendur. Við brot á þessum ákvæðum skal vísa nemanda frá prófi þegar í stað og leggja mál hans fyrir skólaráð, og geta viðurlög varðað brottvikningu úr skóla.

Prófverkefni skulu liggja á borðum þegar próf hefst.

Kennarar í prófgreinum skulu vera viðstaddir og koma a.m.k. tvisvar í hverja prófstofu meðan á prófi stendur.

Nemendur mega ekki yfirgefa prófstofu fyrr en eftir eina klukkustund. Þegar prófi lýkur þá skulu þeir nemendur sem eftir eru skila prófverkefni til yfirsetumanns og yfirgefa prófstofu tafarlaust.

Í prófstofu er nemendum óheimilt að hafa með sér yfirhafnir, skólatöskur/plastpoka, farsíma og aðra hluti en þá sem tilgreindir eru sem hjálpargögn í viðkomandi prófi.

Nemendur geta sótt um sérúrræði í prófum til námsráðgjafa fyrir auglýstan umsóknarfrest á hverri önn.  Með sérúrræðum í prófum er t.d. átt við lengri próftíma, lituð próf, fámennar prófstofur og upplestur á prófum.  Til þess að fá slík úrræði þarf mat námsráðgjafa um nauðsyn þess að liggja fyrir.  Nánar HÉR.

Sé nemandi veikur á prófdegi skal hann tilkynna það áður en próf hefst.

Sjúkrapróf fara fram innan tveggja vikna frá reglulegu prófi í áfanganum. Þeir einir fá að taka sjúkrapróf sem leggja fram fullgild læknisvottorð um forföll sín eða gera á annan hátt grein fyrir þeim á fullnægjandi hátt, ef ekki er um veikindi að ræða. Sækja ber um sjúkrapróf til aðstoðarskólameistara.

Nemendur eiga rétt á að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennara á prófsýningardegi í lok prófatíðar á hverri önn. Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt strax. Ef nemandi telur að hann hafi verið beittur órétti getur hann kært niðurstöður prófs til skólameistara sem þá kallar til óháðan prófdómara. Niðurstaða hans skal standa.

Einkunnir eru nemendum aðgengilegar í skólakerfinu Innu.

Nemandi, sem fellur á prófi, hefur rétt á að þreyta endurtökupróf að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau eru:
1. Nemandinn hefur náð a.m.k. 3 í samanlagðri einkunn í áfanganum.
2. Nemandi getur aldrei þreytt fleiri en tvö endurtökupróf á hverri önn.

 

                                                                                                      uppfært í júní 2017