Frjáls mæting og P-nám H16

Þeir nemendur sem fá frjálsa mætingu hafa heimild til að sleppa kennslustund ef það er óhjákvæmilegt.  Hjá þeim nemendum er ekki haldið fjarvistabókhald.  Sótt er um frjálsa mætingu til aðstoðarskólameistara í fyrstu viku hverrar annar.

Eftirfarandi nemendur geta sótt um frjálsa mætingu:

         Nemendur sem náð hafa 21 árs aldri.  Aldurinn heimilar hins vegar ekki sjálfkrafa frjálsa mætingu.
         Nemendur sem af sérstökum ástæðum telja sig ekki geta uppfyllt 90% skólasókn.
         Nemendur sem eru 18-20 ára og skrá sig í að hámarki 16 einingar á viðkomandi önn.

Allir nemendur sem sækja um frjálsa mætingu þurfa að tilgreina ástæður umsóknar.

Frekari ákvæði um nemendur með frjálsa mætingu:

  1. Nemendur og kennarar gera samning um verkefnaskil og námsmat. Skyldur nemenda ráðast af samningi þessum.
  2. Kennari þarf ekki að koma upplýsingum sérstaklega til nemenda.
  3. Nemendur eiga að mæta undirbúnir í hvern þann tíma sem þeir sækja. Þeir hafa engan sérstakan rétt til að krefja kennara um kennslu í námsatriðum, sem hann kann að hafa farið yfir að þeim fjarstöddum.
  4. Þeim er bent á að vera með tengilið úr hópi nemenda í hverjum áfanga.
  5. Nú hefur nemandi með frjálsa mætingu ekki samband við kennara fyrstu þrjár kennsluvikur annarinnar og lætur ekki vita af sér að öðru leyti. Þá áskilur Framhaldsskólinn á Húsavík sér rétt til að skrá viðkomandi nemanda úr námi, enda hafi frekari eftirgrennslanir reynst árangurslausar.
  6. Skólanum ber ekki skylda til þess að heimila nemendum með frjálsa mætingu að taka próf annars staðar en í húsnæði Framhaldsskólans á Húsavík.

Athygli er vakin á því að sumir áfangar eru þess eðlis að ekki er hægt að heimila frjálsa mætingu í þeim.  Þar má nefna íþróttir, skyndihjálp og lífsleikni.

Athugið að frjáls mæting er EKKI sama og fjarnám!

 

P-nám.
P-áfangar kallast þeir áfangar þar sem nemandi þreytir próf án tímasóknar. 

Nemendur, sem náð hafa einkunninni 8 eða hærra í undanfara, geta sótt um p-áfanga.  Nemandi getur þó aldrei tekið meira en 10 einingar í p-námi á önn (6 einingar skv. eldri námskrá).

Enn fremur er hægt að sækja um p-nám ef sýnt er að áætluð námslok frestist að öðrum kosti og nemandinn hefur almennt staðið sig vel í námi að öðru leyti.

Sótt er um p-áfanga til aðstoðarskólameistara í fyrstu viku hverrar annar.

Nemandi fær í upphafi annar vinnuáætlun frá kennara, þar sem fram koma upplýsingar um námsefni, námsmat og verkefnaskil.  Um nemendur í p-námi geta gilt aðrar reglur varðandi þessi efni en hjá öðrum nemendum.

P-nemanda er skylt að hafa samband við kennarann í upphafi annar og skipuleggja nám sitt í samráði við hann.  Nemandinn skal ætíð hafa frumkvæði að því að hitta kennarann.

Athygli er vakin á því að sumir áfangar eru þess eðlis að ekki er unnt að leggja stund á þá án tímasóknar.

Töflubreytingar H16