Skólasóknarreglur H14

Meginregla:   Nemendur eiga að mæta stundvíslega í allar kennslustundir. 

Veitt er ákveðið svigrúm frá þessari meginreglu sem hér segir:

Heildarskólasókn nemenda má ekki vera undir 90%.

Skólasókn í hverjum einstökum áfanga má ekki vera undir 85%.

Leyfi frá skólasókn getur skólameistari og aðstoðarskólameistari gefið ef sérstakar ástæður liggja að baki.  Öðrum er ekki heimilt að veita leyfi frá mætingu, hvorki til lengri eða skemmri tíma.

Viðverumerkingar í kennslustundum:
M = sjálfgefinn viðverukóði, nemandinn er í tímanum.
F = fjarvist úr 60 mínútna tíma. Gefur 1 fjarvistastig.
G = fjarvist úr 40 mínútna tíma. Gefur 0,67 fjarvistastig.

ATH. Komi nemandi of seint í kennslustund, þ.e. eftir að kennari er búinn að lesa upp og kennsla er hafin, telst nemandinn fjarverandi þá kennslustund.

Frádráttarliðir fjarvista:
V = veikindi
L = leyfi
A = töfluárekstur

Það svigrúm sem nemendur hafa skv. skólasóknarreglum geta þeir nýtt t.d. ef þeir þurfa nauðsynlega að bregða sér frá. 

Veikindi skal tilkynna á skrifstofu skólans að morgni sama dags.  Forráðamenn 16-17 ára nemenda skulu tilkynna veikindi barna sinna.  Trúnaðarmaður (sem skólinn samþykkir) 18-20 ára nemenda skal tilkynna veikindi þeirra.  Skólanum er heimilt að krefjast læknisvottorða vegna langtíma veikinda.  Langveikum nemendum er bent á að hafa samband við stjórnendur skólans í upphafi annar.

Nemendum skal gefin einkunn í prósentum fyrir skólasókn. Skólasókn er ekki metin til eininga.

Í Aðalnámskrá er sérákvæði um undanþágur frá skólasókn fyrir fatlaða nemendur og afreksfólk í íþróttum.

Viðurlög:  Nái nemandi ekki tilskilinni skólasókn í einum áfanga (þ.e. 85%) er litið svo á að hann hafi þar með sagt sig úr þeim áfanga.  Fær hann þá skráða einkunnina H (hættur) fyrir áfangann í námsferil sinn.  Fari nemandi niður fyrir leyfilegt lágmark í heildarskólasókn (þ.e. 90%) er litið á það sem úrsögn úr skólanum.  Nemendur sem hafa sagt sig úr einstökum áföngum eða skóla vegna fjarvista hafa ekki leyfi til þess að þreyta próf í lok annar.

Meðferð mála:  Ef útreikningar á fjarvistum benda til þess að nemandi segi sig frá skóla með sama áframhaldi skal senda honum áminningarbréf eða foreldrum/forráðamönnum ef nemandi er yngri en 18 ára. Segi nemandi sig úr skóla og/eða áfanga vegna brota á skólasóknarreglum ber að tilkynna honum það skriflega.  Nemandinn hefur tímabundinn andmælarétt.  Að auki getur nemandi sótt um undanþágu frá skólasóknarreglum til skólaráðs.

ATH.:  Ætlast er til að nemendur fylgist sjálfir með fjarvistum sínum í Innu – engin fjarvistablöð verða afhent sérstaklega í umsjón!

Ef nemandi er ósáttur við fjölda skráðra fjarvista í áfanga skal hann strax hafa samband við viðkomandi kennara.

Nemendum er eindregið ráðlagt að halda sitt eigið fjarvistabókhald!

 

P-nám og frjáls mæting