Nemendafélag FSH

13.9.2018

Nýnemavígsla

Félagslífið byrjaði af krafti þetta skólaárið, eldri nemendur tóku á móti nýnemum á þeirra fyrsta skóladegi og þeirra beið dagskrá full af fjöri. Fyrsti dagskrárliðurinn var limbó og þar á eftir fylgdi bandýmót og hraðstefnumót svo fátt eitt sé nefnt. Nemendur tóku þátt í spurningakeppni á miðvikudagskvöldi og að nýnemavígslunni lokinni bauð nemendaráðið nemendum og starfsmönnum upp á grillaðar pylsur á föstudeginum.

Á fimmtudeginum í vikunni á eftir var farið í nýnemaferð. Tæpir 40 nemendur settust upp í rútu og fyrsta stopp var Skautahöll Akureyrar. Eftir mikil átök á skautasvellinu var haldið í sund, einstaka nemendur nýttu þann tíma til að slaka á í heitu pottunum á meðan aðrir fóru ferð eftir ferð í rennibrautunum og enn aðrir fóru í kalda karið. Áður en haldið var heim var nemendum boðið upp á Pizzuhlaðborð á Greifunum.