Nemendafélag FSH

29.5.2016

Brautskráning í FSH!

Í gær brautskráði Framhaldsskólinn á Húsavík 15 nemendur við hátíðlega athöfn í Húsavíkurkirkju að viðstöddu fjölmenni. Þetta var 29. brautskráning skólans. Stúdentar voru 14, 8 af félagsfræðibraut og 6 af náttúrufræðibraut. Einn nemandi útskrifaðist af starfsbraut. Skólinn þakkar öllum þeim fjölda fyrirtækja og stofnana sem gáfu gjafir til að afhenda nemendum í viðurkenningarskyni fyrir góðan árangur á ýmsum sviðum. 

Dóra Ármannsdóttir skólameistari bauð alla velkomna og óskaði útskriftarefnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með merkan áfanga. Þá sungu útskriftarnemarnir Jón Ásþór Sigurðarson og Kristín Kjartansdóttir ,,Okkar ár“ texta eftir fyrrverandi nemanda skólans, Kristjönu Maríu Kristjánsdóttur, við lag eftir Kenny Rogers. Ágúst Þór Brynjarsson spilaði undir á gítar. Að lokinni ræðu skólameistara og aðstoðarskólameistara, Jóneyjar Jónsdóttur, voru nemendur brautskráðir.

Af félagsfræðibraut brautskráðust:  Birna Íris Barkardóttir, Elín Ragnarsdóttir, Hilmar Másson, Huld Grímsdóttir, Jón Óskar Ágústsson, Jón Ásþór Sigurðarson, Kristín Kjartansdóttir og Þórdís Ása Guðmundsdóttir.

Af náttúrufræðibraut brautskráðust: Aðalsteinn Þórðarson, Ásgeir Sigurgeirsson, Brynjar Örn Arnarson, Halldóra Björg Þorvaldsdóttir sem lauk stúdentsprófi með flestar einingar, Hrefna Jónsdóttir og Jana Björg Róbertsdóttir.

Rut Guðnýjardóttir útskrifaðist af starfsbraut.

Helga Björg Sigurðardóttir lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla og tók við skírteini sínu.

Veittar voru eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningar fyrir störf í stjórn Nemendafélags FSH hlutu Birna Íris Barkardóttir frá Lyfju á Húsavík, Halldóra Björg Þorvaldsdóttir frá Sparisjóði Suður-Þingeyinga og Jana Björg Róbertsdóttir frá Tómstunda- og æskulýðssviði Norðurþings.

Viðurkenningu fyrir frábæra skólasókn hlaut Aðalsteinn Þórðarson frá Söginni ehf. En Aðalsteinn var með 99,44% raunmætingu.

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í félagsgreinum hlaut Huld Grímsdóttir frá Vátryggingafélagi Íslands.

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í íslensku hlaut Birna Íris Barkardóttir frá Íslandsbanka.

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í ensku hlaut Elín Ragnarsdóttir frá Landsbankanum á Húsavík.

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í þýsku hlaut Hrefna Jónsdóttir frá Sendiráði Þýskalands á Íslandi.

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í raungreinum hlaut Halldóra Björg Þorvaldsdóttir frá Framsýn stéttarfélagi Þingeyinga.

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í dönsku hlaut Jana Björg Róbertsdóttir frá Sendiráði Danmerkur á Íslandi. Jana Björg fékk einnig viðurkenningu fyrir frábæran árangur í stærðfræði og eðlisfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Og síðast en ekki síst hlaut Jana Björg viðurkenningar frá Hollvinasamtökum FSH, Menningarsjóði þingeyskra kvenna og Þekkingarneti Þingeyinga fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi, 9,14.

Þá flutti Birna Íris Barkardóttir ræðu fyrir hönd nýstúdenta og Heiðar Hrafn Halldórsson fyrir hönd 10 ára stúdenta. Að því loknu söng Kvennakór Húsavíkur undir stjórn Hólmfríðar Benediktsdóttur þrjú lög. Þess ber að geta að allar söngkonurnar eru stúdentar frá Framhaldsskólanum á Húsavík.

Skólameistari þakkaði nemendum og samstarfsfólki innilega fyrir samstarfið síðastliðin 24 ár en hún lætur af störfum við skólann 1. ágúst. Var henni þakkað með blómum og lófataki.