Nemendafélag FSH

16.9.2015

Jarðfræðiferð

Nemendur í JAR103 fóru í námsferð 1. sept. ekið var um Hólasand til Mývatns. Fyrsta stoppið var fyrir ofan Langavatn þar sem öskulög úr Heklu voru skoðuð. Kröflumegineldstöðin var aðal viðfangsefnið í ferðinni. Fyrst skoðuðu nemendur Víti sem myndaðist í sprengigosi í upphafi Mývatnselda 1724, síðan var gengið suður fyrir Leirhnjúk og sprungusveimur Kröflueldstöðvarinnar skoðaður ásamt gígum frá lokum Mývatnselda 1728.Ofan af Leirhnjúki blasa hraun við frá Kröflueldum sem stóðu frá 1975 til 1984 og voru þau skoðuð. Í Leirhnjúki er virkt háhitasvæði og þar gafst tækifæri til að líta á hvítan og rauðan hveraleir ásamt ýmsum útfellingum t.d. brennistein og gifs. Næst var Grjótagjá skoðuð og Dimmuborgir. Hraunið í Dimmuborgum er komið frá Lúdents- og Þreingslaborgum fyrir um 2100 árum. Hraunið rann yfir Syðriflóa í Mývatni niður Laxárdal og Aðaldal og til sjávar. Þetta hraun er kallað Laxárhraunið yngra, gervigígarnir við Skútustaði og í Aðaldal eru í því og nemendurnir skoðuðu þá. Ferðin var vel heppnuð og nemendur stóðu sig með mikilli prýði.

Myndir