Nemendafélag FSH

26.5.2015

Brautskráning

Framhaldsskólanum á Húsavík var slitið við hátíðlega athöfn í Húsavíkurkirkju laugardaginn 23. apríl að viðstöddu fjölmenni. Þá voru brautskráðið 23 nemendur, 20 af stúdentsbrautum og 3 af starfsbraut. Dóra Ármannsdóttir skólameistari bauð alla velkomna og óskaði útskriftarefnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með merkan áfanga. Þá söng útskriftarnemandi Eygló Dögg Hjaltadóttir lagið ,,Líttu sérhvert sólarlag“ eftir Braga Valdimar Skúlason við undirleik Ástu Magnúsdóttur. Eftir ræður skólameistara og Herdísar Þ. Sigurðardóttur aðstoðarskólameistara fór fram brautskráning og afhending viðurkenninga. Þeir nemendur sem hlutu viðurkenningar eru: Hjörvar Gunnarsson, Jón Þór Jónsson og Eyþór Traustason fyrir félagsstörf, Eygló Dögg Hjaltadóttir fyrir framfarir í námi, Halldór Kárason fyrir góðan námsárangur í efnafræði, Dagbjört Ingvarsdóttir fyrir góðan námsárangur í þýsku, stærðfræði og eðlisfræði. Dagbjört hlaut einnig viðkenningu fyrir frábæra skólasókn. Ólöf Traustadóttir hlaut viðkenningar fyrir íslensku, félagsgreinar, ensku og raungreinar en hún var jafnframt dúx skólans með meðaleinkunnina 9,07. Tómstunda-og æskulýðssvið Norðurþings, Lyfja Húsavík, Sparisjóður Suður-Þingeyinga, Landsbankinn, Íslandsbanki, Menningarsjóður Þingeyskra kvenna, Háskólinn í Reykjavík, VÍS Húsavík, Framsýn, Sögin ehf., Þekkingarnet Þingeyinga og Hollvinasamtök FSH gáfu viðurkenningar og fá bestu þakkir fyrir. Hjörvar Gunnarsson flutti ræðu fyrir hönd nýstúdenta, Hermann Aðalgeirsson fyrir hönd 10 ára stúdenta og Halla Rún Tryggvadóttir fyrir 20 ára stúdenta. Bylgja Steingrímsdóttir söng lagið ,,Heyr mína bæn“ og Arnór Orri Bjarkason og Héðinn Mari Garðarsson spiluðu undir á gítar. Björgvin R. Leifsson sem hættir nú störfum við FSH var kvaddur með gjöfum og lófaklappi. Hann óskaði skólanum og útskriftarnemum velfarnaðar.