Nemendafélag FSH

22.5.2015

Bókun skólanefndarfundar FSH

Skólanefnd Framhaldsskólans á Húsavík fagnar frétt RÚV frá því fyrr í dag, 22.5.2015, þar sem sagt er að sameining framhaldsskóla á Norðausturlandi sé ekki á dagskrá og að engin ákvörðun hafi verið tekin í þeim efnum. Að mati skólanefndarinnar eiga markmiðin framundan að snúast um að tryggja nemendum, og tilvonandi nemendum skólans, fjölbreytt og öflugt nám, að tryggja sjálfræði og sjálfstæði stofnunarinnar á sama tíma og rammi verði settur utan um virkari samvinnu milli framhaldsskóla innan svæðisins.

Byggðaþróun í héraðinu hefur verið með þeim hætti undanfarin ár að nemendafæð hefur orðið veruleg áhrif á bolmagn skólans til að halda úti fjölbreyttu námi. Við þessari stöðu þarf að bregðast en leiðin sem valin verður til þess þarf að hafa ofangreind markmið að leiðarljósi. Það verður hins vegar að viðurkenna þá staðreynd að smærri skólar eru og verða hlutfallslega dýrari rekstrareiningar en þeir stærri og óraunhæft er að gera sömu hagkvæmnikröfur á alla skóla óháð stærð. Skólanefnd Framhaldsskólans á Húsavík telur aukið samstarf og samvinnu skóla af hinu góða sé gengið út frá því að leiðarljósið verði efling námsins en ekki fjárhagsleg skerðing stofnunarinnar. Skólanefndin er reiðubúin til að takast á við verkefnin framundan en á ofangreindum forsendum.