Nemendafélag FSH

13.9.2013

Góðir gestir í FSH!

Það er búið að vera gestkvæmt hjá okkur í FSH þessa vikuna. Á þriðjudaginn komu 20 unglingar frá Tynset í Noregi í heimsókn. Hópurinn er hér á landi í námsferð með tveimur raungreinakennurum. Krakkarnir í stjórn nemendafélagsins gengu með þeim um skólann og var raungreinastofan skoðuð sérstaklega og þar tók Björgvin R. Leifsson á móti þeim. Á kennarastofunni fengu gestirnir hressingu og var það mál manna að virkilega ánægjulegt hefði verið að fá þessa prúðu og áhugasömu frændur okkar í heimsókn. 

Á miðvikudaginn voru fyrirlestrar á sal. Sigurður Ragnar Eyjólfsson fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu hélt tvo fyrirlestra, sá fyrri var um markmiðasetningu og hversu mikilvægt er að setja sér markmið til að ná árangri. Seinni fyrirlesturinn var fyrir nemendur sem þjálfa íþróttir með Völsungi og eru í afreksíþróttahópi í skólanum. Hér má sjá myndir.