Nemendafélag FSH

27.5.2013

Brautskráning og skólaslit!

Framhaldsskólanum á Húsavík var slitið við hátíðlega athöfn í Húsavíkurkirkju laugardaginn 25. maí að viðstöddu fjölmenni. Að þessu sinni voru 29 nemendur brautskráðir frá skólanum.  Stúdentar voru 22 talsins, þar af 10 af félagsfræðibraut, 10 af náttúrufræðibraut og tveir með viðbótarnám til stúdentsprófs.  Jafnframt voru brautskráðir fjórir félagsliðar, einn sjúkraliði og tveir skiptinemar sem hafa auðgað skólann með nærveru sinni á undanförnum tveimur önnum. Þá hafa samtals 742 nemendur lokið prófi frá Framhaldsskólanum á Húsavík.  Þar af eru 432 stúdentar, 63 af iðnbrautum og 243 af ýmsum starfsnámsbrautum og undirbúningsbrautum.

Hæstu einkunn á stúdentsprófi, eða 9,35, hlaut Helga Björk Heiðarsdóttir. Helga Björk fékk af þessu tilefni viðurkenningu frá Hollvinasamtökum FSH. Einnig hlaut Helga Björk viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði frá Skarpi, fyrir góðan árangur í efnafræði fékk hún verðlaun frá Efnafræðingafélagi Íslands, fyrir þýsku frá þýska sendiráðinu og fyrir íslensku frá Sparisjóði Suður-Þingeyinga.

Anna Jónína Valgeirsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í félagsfræði frá Vátryggingarfélagi Íslands og fyrir góðan árangur í dönsku frá danska sendiráðinu.

Kristófer Reykjalín Þorláksson hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku frá Landsbankanum. Fyrir góðan árangur í stærðfræði fékk hann verðlaun frá Íslandsbanka og Stærðfræðingafélagi Íslands. Einnig hlaut Kristófer viðurkenningu frá Stýrihópi heilsueflandi framhaldsskóla hjá Landlæknis embættinu fyrir jákvæðan lífsstíl og starf í björgunarsveit.

Sigríður Aðalgeirsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í námi frá Menningarsjóði þingeyskra kvenna. Inga Maren Sveinbjörnsdóttir hlaut viðurkenningu frá Framhaldsskólanum á Húsavík fyrir að hafa lokið flestum einingum á félagsliðabraut.

Sigurveig Gunnarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í jarðfræði frá Gámaþjónustu Norðurlands. Sigurveig hlaut einnig viðurkenning fyrir góða ástundun ásamt Lilju Björk Hauksdóttur en þær voru báðar með 99% skólasókn. Viðurkenningarnar voru frá Bókaverslun Þórarins Stefánssonar og Framhaldsskólanum á Húsavík.

Þrír nemendur hlutu viðurkenningar fyrir félagsstörf frá Framsýn, Lyfju og  Tómstunda- og æskulýðssviði Norðurþings. Það voru þau Sindri Ingólfsson, formaður nemendafélags FSH, Sonja Sif Þórólfsdóttir gjaldkeri félagsins og Anna Halldóra Ágústsdóttir sem einnig var í stjórn nemendafélagsins.

Að þessu sinni voru það tveir piltar sem brautskráðust með flestar einingar eða 147.  Það voru Kristófer Reykjalín Þorláksson og Stefán Óli Valdimarsson.

Dagskrá brautskráningar hófst með ávarpi skólameistara, Dóru Ármannsdóttur. Að því loknu söng Kristófer lagið ,,Ég er komin heim“ við undirleik Hólmfríðar Benediktsdóttur. Þá flutti Herdís Þuríður Sigurðardóttir aðstoðarskólameistari ræðu. Að lokinni brautskráningu flutti Sindri Ingólfsson nýstúdent kveðjuávarp fyrir hönd útskriftarnema við góðar undirtektir viðstaddra. Þá lék Sigurður Sigurjónsson á gítar lagið Rondo eftir Mauro Giuliani. Jón Höskuldsson flutti ávarp fyrir hönd 20 ára útskriftarnema og dagskránni lauk með heillaóskum skólameistara og skólaslitum.

Framhaldsskólinn á Húsavík óskar nemendum sínum hjartanlega til hamingju með áfangann, þakkar þeim ánægjulega samveru og samstarf á liðnum árum og óskar þeim allra heilla í framtíðinni.

Hér má sjá myndir.