Nemendafélag FSH

2.10.2011

Skemmtiferð NEF - FSH og Túns

Hefð er fyrir því að hefja veturinn á því að fara í skemmtiferð með nemendur og hrista saman nýnemana og eldri nemendur. Undan farin ár hefur verið farið í ferð inn á Akureyri og við breyttum ekkert út af vananum í ár en dagskráin var með allt öðru sniði.
Rúnar og Bendi sóttu okkur stundvíslega klukkan 15:00. Nemendum var skipt niður í hópa og hóparnir voru saman í rútum. Þegar við komum inn á Akureyri hófst æsispennandi þrautaratleikur þar sem nemendur þurftu að leysa margar skemmtilegar og krefjandi þrautir eins og myndirnar sýna. Á listanum var t.d. sjósund, að hlaupa upp kirkjutröppurnar á brókinni, að sníkja ókeypis mat, að fá að bregða sér á salernið hjá ókunnugum, að biðja einhvern um að giftast sér og margt margt fleira skemmtilegt sem stjórn NEF með sitt frjóa hugmyndaflug hugkvæmdist. Leikurinn heppnaðist gífurlega vel og veðrið lék við okkur. Að leik og keppni lokinni lá leiðin á Greifan þar sem glorhungraðir nemar rifu í sig dýrindis pítsur, brauðstangir og franskar sem klikkaði ekki frekar enn fyrri daginn hjá þeim Greifamönnum. Pakkksaddir nemar skelltur sér svo í Borgarbíó þar sem hægt var að velja á milli spennutryllis og gríntryllis. Það voru afskaplega sælir og sáttir nemar sem renndu upp að FSH rétt fyrir miðnætti þetta kvöld og á Stjórn NEF hrós skilið fyrir flott skipulag og frábæra ferð.