Nemendafélag FSH

26.8.2011

Framhaldsskólinn á Húsavík settur í 25. sinn

Framhaldsskólinn á Húsavík var settur í dag og hóf þar með sitt 25. starfsár. Að þessu sinni hefja 28 nýnemar nám við skólann að loknum 10. bekk og koma þeir flestir úr Borgarhólsskóla. Alls eru rúmlega 180 nemendur skráðir til náms við skólann og er það talsverð fjölgun frá fyrri árum.
Nokkrar breytingar hafa orðið á starfsliði skólans.  Sigríður Mjöll Marinósdóttir þýskukennari hefur hætt störfum við skólann og einnig Karen Júlía Sigurðardóttir sálfræðingur sem gegndi starfi námsráðgjafa sl. vetur. Þá hefur Árni Sigurðsson húsvörður tekið þá ákvörðun að hætta stöfum við skólann og  fara á eftirlaun. Þeim er öllum þakkað mjög gott samstarf í þágu nemenda skólans og óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.  Nýir starfsmenn á þessu hausti eru Árný Þóra Ármannsdóttir náms- og starfsráðgjafi. Sæunn Helga Björnsdóttir ritari skólans verður í leyfi í vetur og mun Svanhildur Jónsdóttir gegna starfi ritara í hennar stað.  Hafdís Hallsdóttir hefur verið ráðin umsjónarmaður I, og mun hún m.a. annast ræstingu og hafa eftirlit með umgengni nemenda um hús skólans.  Þá munu tveir stundakennarar starfa við skólann á haustönn, það eru þær Guðný Björnsdóttir og Dagbjört Erla Gunnarsdóttir sem kenna munu í sameiningu áfangann THH102 Tíska, hár og húð. 
Í vetur mun skólinn hefja þátttöku í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli. Sérstök áhersla verður lögð á næringu og mikilvægi hollustu fyrir heilsu og líðan. 
Framkvæmdir hafa staðið yfir í húsum skólans í allt sumar og sú aðstaða sem ætluð er nemendum tekið miklum breytingum.  Í kjallara skólans hefur nú verið sett upp nýtt eldhús sem jafnframt gegnir hlutverki nemendasjoppu auk þess sem ný setustofa hefur verið innréttuð fyrir nemendur.
Námsframboð skólans er lítið breytt frá fyrra skólaári, þó má geta þess að í haust auglýsti skólinn nám á skrifstofu- og fjármálabraut í samstarfi við Menntaskólann á Egilsstöðum. Alls hafa um 30 nemendur skráð sig til náms þarf af 5 á Húsavík og Þórshöfn. Námið fer fram í fjarfundi og verður í umsjá ME, þar sem meiri hluti nemenda er staðsettur. Kennsla á námsbrautinni skiptist á milli skólanna og fer að hluta fram í FSH.
Í vetur munu nemendur skólans stunda nám á almennum brautum, félagsfræðibraut, náttúrufræðibraut, starfsbraut, námsbraut fyrir leiðbeinendur í leikskólum, sjúkraliðabraut og félagsliðabraut.