Nemendafélag FSH

23.5.2011

Skólaslit og brautskráning

Framhaldsskólanum á Húsavík var slitið við hátíðlega athöfn í Húsavíkurkirkju laugardaginn 21. maí að viðstöddu fjölmenni. Að þessu sinni voru 22 nemendur brautskráðir frá skólanum, einn nemandi var brautskráður af starfsbraut og 21 nemandi var brautskráður með stúdentspróf, Þá hafa samtals 671 nemandi verið brautskráðir frá skólanum, 386 með stúdentspróf, 63 iðnnemar og 222 með önnur próf.
Hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut að þessu sinni Ragnar Pálsson, I. einkunn 8,77. Ragnar fékk af þessu tilefni viðurkenningu frá Hollvinum skólans og Bókaverslun Þórarins Stefánssonar. Ragnar hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku frá Vátryggingarfélagi Íslands, viðurkenningu fyrir góðan árangur í dönsku frá sendiráði Danmerkur á Íslandi, viðurkenningu fyrir góðan árangur í þýsku frá sendiráði Þýskalands á Íslandi, viðurkenningu fyrir góðan árangur í raungreinum frá Háskólanum í Reykjavík, viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði frá Íslandsbanka, Húsavík og viðurkenningu fyrir félagsstörf frá tómstunda- og æskulýðssviði Norðurþings, en Ragnar hefur á undanförum árum tekið virkan þátt í uppbyggingu félagsstarfs á vegum sveitarfélagsins og skólans í Keldunni og nú í Túni.
Aðrar viðurkenningar hlutu Arnljót Anna Jóhannsdóttir fyrir miklar framfarir í námi frá Lyfju á Húsavík og Íris Grímsdóttir fyrir góðan árangur í samfélagsgreinum frá Framsýn, stéttarfélagi í Þingeyjarsýslu og fyrir góðan árangur í íslensku frá Sparisjóði Suður-Þingeyinga. Íris hlaut einnig viðurkenningu Menningarsjóðs þingeyskra kvenna fyrir góðan árangur í námi. Þá hlaut Bóas Gunnarsson viðurkenningu fyrir félagsstörf, en Bóas gegndi embætti formanns nemendafélags skólans í vetur.
Við upphaf athafnarinnar lék Bóas Gunnarsson nýstúdent á gítar Estudio infroma minuetto eftir Francisco Tárrega
Fyrir brautskráningu lék Ragnar Pálsson nýstúdent lagið Bræður. Höfundur lags er Michira Oshima og við lok athafnarinnar sungu og léku þeir Bóas Gunnarsson nýstúdent og Davíð Helgi Davíðsson nýstúdent Leiðir liggja til allra átta, lag Sigfúsar Halldórssonar við texta Indriða G. Þorsteinssonar.
Að loknu ávarpi skólameistara, flutti Gunnar Baldursson aðstoðarskólameistari annál skólaársins og að því loknu flutti fulltrúi 20 ára útskriftarnema, Erna Björnsdóttir, ávarp. Að lokinni brautskráningu flutti Bóas Gunnarsson nýstúdent kveðjuávarp fyrir hönd útskriftarnema við góðar undirtektir viðstaddra.
Framhaldsskólinn á Húsavík óskar nemendum sínum hjartanlega til hamingju með áfangann, þakkar þeim ánægjulega samveru og samstarf á liðnum árum og óskar þeim allra heilla í framtíðinni.