Nemendafélag FSH

20.8.2010

Framhaldsskólinn á Húsavík settur í 24. sinn

Framhaldsskólinn á Húsavík var settur í dag og hóf skólinn þar með sitt 24. starfsár. Að þessu sinni hefja 36 nýnemar nám við skólann að loknum 10. bekk og koma þeir flestir úr Borgarhólsskóla.

Litlar breytingar eru á starfsliði skólans, Herdís Þ. Sigurðardóttir kemur til starfa á ný að loknu fæðingarorlofi, þá mun Karen Júlía Sigurðardóttir sálfræðingur annast námsráðgjöf og Brynhildur Gísladóttir hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin skólahjúkrunarfræðingur í vetur.

FSH og Íþróttafélagið Völsungur gerðu í vor með sér samkomulag um að bjóða þeim nemendum sem stunda íþróttir með félaginu að skrá sig í afreksíþróttaáfanga og gefur hver áfangi 2 einingar. Þesari nýjung hefur verið afar vel tekið og eru um 30 nemendur skráðir í afreksíþróttir nú á haustönn. Til þess að efla enn frekar heilbrigðan lífsstíl nemenda mun skólinn taka þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli, undirbúningur verkefnisins fer fram í vetur með leiðsögn frá Lýðheilsustöð.

Námsframboð skólans er lítið breytt frá fyrra skólaári, þó má geta þess að í vor auglýsti skólinn nám fyrir félagsliða í samstarfi við Menntaskólann á Egilsstöðum. Alls munu um 20 nemendur hefja nám á brautinni í haust. Námið verður í umsjá ME, þar sem meiri hluti nemenda er staðsettur, en kennslan fer að hluta fram í FSH. Að auki munu nemendur skólans stunda nám á almennum brautum, félagsfræðibraut, náttúrufræðibraut, starfsbraut, námsbraut fyrir leiðbeinendur í leikskólum og á sjúkraliðabraut.
Um 170 nemendur eru skráðir til náms á haustönn og eru það eru heldur fleiri en verið hefur.