Nemendafélag FSH

28.5.2010

Brautskráning og skólaslit

Framhaldsskólanum á Húsavík var slitið við hátíðlega athöfn í Húsavíkurkirkju föstudaginn 21. maí að viðstöddu fjölmenni. Að þessu sinni voru 27 nemendur brautskráðir frá skólanum, einn nemandi var brautskráður af starfsbraut, einn af almennri námsbraut II, einn nemandi var brautskráður með próf af skrifstofu- og tölvubraut og 24 nemendur voru brautskráðir með stúdentspróf, 13 af félagsfræðibraut og 11 af náttúrufræðibraut. Þá hafa samtals 649 nemendur verið brautskráðir frá skólanum, 365 með stúdentspróf, 63 iðnnemar og 221 með önnur próf.

Hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut að þessu sinni Ólafía Helga Jónasdóttir, I. einkunn 8,93. Ólafía Helga fékk af þessu tilefni viðurkenningu frá Hollvinum skólans og Bókaverslun Þórarins Stefánssonar. Ólafía Helga hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur í íslensku frá Sparisjóði Þingeyinga og fyrir góðan árangur í dönsku frá sendiráði Danmerkur á Íslandi.

Aðrar viðurkenningar hlutu Davíð Fannar Fannarsson fyrir góðan árangur í stærðfræði frá FSH og fyrir góðan árangur í efnafræði frá Íslandsbanka á Húsavík. Nói Björnsson hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í jarðfræði frá Landsbankanum á Húsavík. Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku frá Framsýn, stéttarfélagi í Þingeyjarsýslu. Freyja Kristjánsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í samfélagsgreinum frá Vátryggingarfélagi Íslands og fyrir góðan árangur í þýsku frá sendiráði Þýskalands á Íslandi, þá hlaut Freyja einnig viðurkenningu fyrir félagsstörf en hún átti sæti í stjórn nemendafélagins á vorönn og var auk þess fulltrúi nemenda í skólaráði og skólanefnd í vetur. Þá hlaut Einar Þór Traustason viðurkenningu fyrir félagsstörf, en Einar gegndi embætti formanns nemendafélags skólans í vetur. Viðurkenningar fyrir félagsstörf voru frá Félagsþjónustu Norðurþings. Helga Soffía Bjarnadóttir hlaut viðurkenningu Menningarsjóðs þingeyskra kvenna fyrir góðan árangur í námi og Vilberg Lindi Sigmundsson hlaut viðurkenningu fyrir miklar framfarir í námi frá Lyfju á Húsavík.

Ivano Sorce frá Ítalíu var skiptinemi við skólann í vetur og færði skólinn honum gjöf að skilnaði.

Við upphaf athafnarinnar söng Steinunn Jónsdóttir nýstúdent Liljuna við undirleik Guðna Bragasonar, textann gerði Þorsteinn Gíslason. Fyrir brautskráningu flutti Alexander Hermannson nýstúdent lagið My way við undirleik Guðna Bragasonar og við lok athafnarinnar flutti Ármann Örn Gunnlaugsson nýstúdent lagið Clementine eftir Svavar Knút og lék sjálfur undir á gítar.

Að loknu ávarpi skólameistara, flutti Gunnar Baldursson aðstoðarskólameistari annál skólaársins og að því loknu flutti fulltrúi 10 ára stúdenta, Jóna Árný Sigurðardóttir, ávarp. Að lokinni brautskráningu flutti Ármann Örn Gunnlaugsson ávarp nýstúdents við afar góðar undirtektir viðstaddra.

Framhaldsskólinn óskar nemendum sínum hjartanlega til hamingju með áfangann og þakkar þeim ánægjulega samveru og samstarf á liðnum árum.

Myndir er hægt að sjá hér.