Nemendafélag FSH

11.2.2010

Nemendur í frumkvöðlafræði stofna fyrirtæki

Líkt og oft áður hafa nemendur í frumkvöðlafræði við FSH stofnað fyrirtæki sem starfrækir bílabónstöð í ákveðinn tíma. Í áfanganum Frumkvöðlafræði er lokamarkmiðið að stofna fyrirtæki og koma átta nemendur að þessum rekstri.

Búið er að ráða í öll störf, kjósa stjórn og það sem til þarf við að koma fyrirtækinu á koppinn. Framkvæmdarstjóri er Bergþór Arnarson.

Bílabón er til húsa í húsnæði því sem eitt sinn hýsti m.a. rækjuverksmiðju Íshafs og þegar 640.is sótti fyrirtækið heim í dag voru þar fimm starfsmenn á útopnu við að þrífa og bóna bíla. Bergþór sagði þetta fara vel að stað, þau hafi samið við Vísi hf. um leigu á aðstöðunni og þá hafi náðst hagstæðir samningar við Þráinn í Shell um kaup á hreinsiefnum þeim sem til þarf í svona starfsemi.

„Við bjóðum upp á alþrif á bílum sem inniheldur sápuþvott, tjöruhreinsun, hreinsun að innan og bón og verðum með opið á miðvikudögum kl. 16-19 og á föstudögum frá kl. 12-17. Og ef það dugar ekki til vinnum við lengur". Sagði Bergþór en ætlunin er að starfrækja fyrirtækið fram til 15 apríl.
Sigríður Hauksdóttir kennari var með fyrstu viðskiptavinum Bílabóns og var hún alveg í skýjunum með bílinn þegar hún fékk hann í hendurnar aftur. Sagði þann rauða eins og nýjan á að líta og krakkarnir hafi greinilega unnið sitt starf af kostgæfni fyrir mjög svo sanngjarnt verð. Sjá nánar á http://640.is/news/nemendur_stofna_fyrirtaeki/

Að sögn Bergþórs kostar þrif og bón á fólksbíl 7000 kr.-, 8500 kr. á jepplingum og 10000 kr. á jeppum, pall- og sendibílum og eru tímapantanir í síma 8669297.