Nemendafélag FSH

20.8.2009

Skóli settur í dag

Framhaldsskólinn á Húsavík var settur í 23. sinn í dag 20. ágúst með ávarpi skólameistara Laufeyjar Petreu Magnúsdóttur. Í ávarpi sínu hvatti skólameistari nemendur til þess að stunda nám sitt af alúð og metnaði. Þá kynnti hún ný einkunnarorð skólans. Einkunnarorðin voru valin í sameiginlegri atkvæðagreiðslu nemenda og starfsfólks sl. vor. Ný einkunnarorð skólans eru frumkvæði, samvinna og hugrekki.
Sigríður Hauksdóttir, félagsmála- og forvarnafulltrúi skólans hélt stuttan pistil um félagslífið og hvatti nemendur eindregið til að taka sem mestan þátt í því.

Alls munu um 160 nemendur stunda nám við skólann í vetur, þar af eru nýnemar 55. Þeir nemendur sem hefja nám á fyrsta ári í dagskóla eru 25. Nýnemar á námsbraut fyrir leiðbeinendur í leikskólum eru 21, 10 nemendur munu stunda námið í fjarfundi hjá Símey á Akureyri. Þá eru 11 nemendur að hefja nám á námsbraut fyrir sjúkraliða.

Engar breytingar eru á skipan starfsfólks við skólann að þessu sinni.

Að skólasetningu lokinni áttu nemendur fund með umsjónarkennurum sínum. Hér má sjá myndir sem teknar voru við það tækifæri.