Nemendafélag FSH

28.5.2009

Brautskráning og skólaslit

Brautskráning og skólaslit FSH fóru fram 23. maí við hátíðlega athöfn frá Húsavíkurkirkju. Útskriftarnemendur voru  49 talsins, 27 brautskráðust af umönnunarbrautum með brúarsniði, þar af 16 af félagsliðabraut, 3 af námsbraut fyrir leiðbeinendur í leikskólum, 8 af námsbraut fyrir stuðningsfulltrúa í grunnskólum og einn af skólaliðabraut. Einn nemandi brautskráðist af almennri námsbraut III, 13 stúdentar af félagsfræðibraut og 8 stúdentar af náttúrufræðibraut. Útskriftarnemendur hafa aldrei verið fleiri við skólann og helgast það af fjölda kvenna sem stunduðu brúarnám á umönunarbrautum á undanförnum fimm önnum. Brúarnámið var samhliða vinnu og var að hluta kennt í gegnum fjarfundarbúnað enda komu nemendurnir víða að úr Norðurþingi og nágranna sveitarfélögum.

Af þeim sem luku stúdentsprófu luku rúmur helmingur nemenda námi á færri en 8 önnum. Þetta sýnir að skólanum hefur tekist vel að bjóða nemendum sínum að ljúka námi sínu á þeim hraða sem hentar hverjum og einum.

Margir nemendur hlutu verðlaun fyrir góðan námsárangur, en mörg fyrirtæki bæjarins hafa gefið útskriftarverðlaun í gegnum árin og er skólinn afar þakklátur fyrir þennan stuðning sem forsvarsmenn fyrirtækja hér í bæ hafa sýnt skólanum. Dúx skólans var Daníel Annisius stúdent af náttúrufræðibraut og hlaut hann fjögur verðlaun fyrir bestan námsárangur í ýmsum greinum.

Útskriftarnemendur ásamt fleiri nemendur við skólann sáu um skemmtiatriði við skólaslitin, og Oddvar Haukur Árnason flutti ræðu fyrir hönd nýstúdenta. Nú hefur skólanum verið slitið í 22 skipti og hafa 622 nemendur verið brautskráðir, 341 með stúdentspróf, 63 iðnnemar og 218 af ýmsum starfsnámsbrautum og undirbúningsbrautum.

Fleiri myndir má sjá hér.