Nemendafélag FSH

31.3.2009

Spurningakeppni grunnskóla í Þingeyjarsýslu

 

Föstudaginn 27. mars stóð Framhaldsskólinn á Húsavík fyrir spurningakeppni grunnskólanna í Þingeyjarsýslum. Keppnin var í umsjá nemenda í Gettu betur hópi FSH og leiðbeinanda þeirra Valdimars Stefánssonar kennara.

Til leiks mættu fimm lið frá eftirtöldum skólum: Borgarhólsskóla,  Hafralækjarskóla,  Litlulaugaskóla, Reykjahlíðarskóla og  Öxarfjarðarskóla. 

Í fyrstu umferð kepptu lið Litulaugaskóla og Reykjahlíðarskóla annars vegar og lið Hafralækjarskóla og Öxarfjarðarskóla hins vegar. Borgarhólsskóli, sem sigraði keppnina í fyrra, sat hjá. Sigurvegarar fyrstu lotu voru lið Reykjahlíðarskóla og Hafralækjarskóla, fóru þau lið því áfram í aðra umferð ásamt Öxafjarðarskóla sem var stigahærra tapliðið.

Í annarri umferð keppti lið Borgarhólsskóla við lið Öxarfjarðarskóla og lið Hafralækjarskóla við lið Reykjahlíðarskóla. Lið Borgarhólsskóla og Reykjahlíðarskóla höfðu betur og kepptu því til úrslita. Borgharhólsskóli sigraði úrslitakeppnina 21 - 10.

Í liði Reykjahlíðarskóla sem hafnaði í öðru sæti voru þau Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir, Hallgrímur Páll Leifsson og Hildur Ásta Þórhallssdóttir. Fengu þau viðurkenningarskjal og 15 þúsund krónur í ferðasjóð í verðlaun.

Í sigurliði Borgarhólsskóla voru þau Hlöðver Stefán Þorgeirsson, Sæþór Örn Þórðarson og  Sigrún Lilja Sigurgeirsdóttir. Fengu þau í verðlaun glæsilegan bikar til eignar, viðurkenningarskjal og 25 þúsund krónur í ferðasjóð.  Þess má geta að Hlöðver Stefán var einnig í sigurliði Borgarhólsskóla í fyrra.

Í liði Hafralækjarskóla voru þau Dagur Þorgrímsson, Hafrún Gunnarsdóttir og Sunna Mjöll Bjarnadóttir. Í liði Litlulaugaskóla voru þau Teitur Erlingsson, Rakel Ösp Aðalsteinsdóttir og Björn Húnbogi Birnuson og í liði Öxafjarðarskóla voru þau María Dís Ólafsdóttir, Sylvía Dröfn Jónsdóttir og Arnar Þór Geirsson

 Að spurningakeppninni lokinni bauð FSH öllum keppendum upp á pizzuveislu á Sölku  ásamt  stuðningsfólki sem kom frá skólunum utan Húsavíkur. 

Keppendur stóðu sig allir mjög vel og voru skólum sínum til sóma.  Framhaldsskólinn þakkar þeim þátttökuna og óskar keppendum og skólunum þeirra allra heilla.

Fleiri myndir