Nemendafélag FSH

1.3.2009

ÁRSHÁTÍÐ FSH


Dillivikan mikla náði hámarki sínu síðastliðið föstudagskvöld með árshátíð FSH. Í ár var hún haldin í Borgarhólsskóla og var salurinn mjög vel skreyttur og huggulegur.

Veislustjóri kvöldsins var enginn annar en sjónvarpsmaðurinn mikli Gísli Einarsson. Hann fór gjörsamlega á kostum og náði að heilla árshátíðargesti upp úr skónum! Salka sá um að mata svanga menn og voru þeir með góðan kjúkling, kartöflugratín og fleira með því. Skemmtiatriði voru fjölbreytt, m.a. tónlistaratriði, kennaraatriði og að sjálfsögðu fjöldasöngur og kokkurinn. Eftir borðhald tók svo DJ Unnur við og þeytti skífum fram á nótt ....

Menn voru á því að árshátíðin hafi heppnast vel í alla staði – nokkrir viðmælendur voru meira að segja á þeirri skoðun að þessi árshátíð hafi verið með þeim betri í langan tíma! Allt í allt var þetta frábær endir á frábærum dillidögum.

Hafþór Hreiðarsson sá um að mynda glæsilega árshátíðargesti við innganginn og má sjá myndirnar hans hér.

DA