Nemendafélag FSH

9.2.2009

SKÍÐAMEISTARINN MIKLI FRÁ FSH


Einn af meðlimum NEF, Stefán Jón Sigurgeirsson, hefur verið mikið í pressunni síðustu mánuði. Hann stundar skíði af kappi og hefur verið að gera góða hluti í skíðaheiminum. Mót eftir mót, afrek eftir afrek, met eftir met. Allt virðist ganga honum í hag!

Stebbi skíðar um allan heim og tekur þátt í alþjóðlegum mótum í öllum heimsálfum. Nú síðast tók hann þátt í bruni á Heimsmeistaramótinu í Val d’Isera í Frakklandi, þar sem hann náði feikilega góðum árangri.

Í þeim litla frítíma sem Stefán Jón fær stundar hann fjarnám í FSH með góðum árangri og stefnir á útskrift í maí.

Við í skólanum erum mjög stolt af honum Stebba okkar og því ákvað vefstjóri NEF að taka smá viðtal við hetjuna miklu ...


Jæja Stebbi, nú ert þú orðinn vel þekktur innan skíðaheimsins. Hvenær byrjaði þessi gríðarlegi skíðaáhugi þinn? Ég byrjaði nú bara að æfa þegar ég var 9 ára, veit ekki af hverju en þá voru miklu fleiri að æfa. Mér hefur alltaf gengið vel og verið gaman að æfa. 

Nú hefur þú skíðað í fjölmörgum löndum og ert alltaf á ferðalögum. Það gerist nú ekki oft sem nemendur FSH fá að njóta þess að sjá þig á göngum skólans. Hvað er núna framunda hjá þér eftir Frakkland? Eftir Heimsmeistaramótið fer ég og keppi á tveimur svigmótum í Ítalíu í Evrópubikar, tek svo smá frí. Í lok febrúar eru svo risasvigmót í Evrópubikarnum og svo HM unglinga í byrjun mars í Þýskalandi. Kem síðan heim um miðjan apríl til að keppa á Landsmótinu.

Lýstu venjulegum degi í lífi þínum. Hvenær ferðu á fætur, hvað borðarðu, hvaða lyf tekurðu, hversu lengi skíðarðu, hvað gerirðu á kvöldin .... hvert er leyndarmálið á bakvið Mr. Stefán? Það er mismunandi hvenær ég þarf að vakna, allt frá kl. 6 til kl. 8. Þá er annaðhvort mót eða æfing og er oftast komin heim á milli eitt og þrjú. Þá tekur við að gera við skíðin og svo reynum við oftast að taka létta æfingu seinnipartinn, hjóla, hlaupa og lyfta. Svo er það bara rólegheit á kvöldin, farið í Tiger eða horft á eitthvað í tölvunni. Ég reyni bara að borða sem fjölbreyttast og tek engin lyf.

Hvernig ferðu að því að skíða alla daga en fá svo 9 og 10 í einkunnir í skólanum? Meira segja í áföngum hjá Gunna Bald og Bjögga Leifs ... Það er ekkert um 10 en ég læri bara vel þegar ég hef tíma til þess heima og fyrir prófin. Maður verður bara að vera skipulagður.

Þú tekur þig ótrúlega vel í skíðauniforminu þínu ... ertu með marga styrktaraðila á bakvið þig til að fjármagna allt dæmið? Ég er með mikið af styrktaraðilum og tekur það sig varla að telja þá upp hér, en það eru nánast öll fyrirtæki á Húsavík sem styrkja mig eitthvað og svo nokkur fyrir sunnan. Styrkirnir ná nánast upp í allt dæmið en ég þarf að borga eitthvað sjálfur.

DA


Stefán í Ástralíu.


Stebbi tekur stökkið í Frakklandi.