Nemendafélag FSH

27.2.2009

HALLA MARÍN SIGURVEGARI NEFRENNSLIS


Söngkeppni FSH, Nefrennsli, fór fram í sal Borgarhólsskóla í gærkvöldi. Húsvíkingar fjölmenntu á þennan stórskemmtilega atburð og var troðfullt í salnum af alls konar fólki!

Segja má að keppnin hafi verið ótrúlega fjölbreytt og skemmtileg og muna elstu kennarar skólans varla eftir eins keppni. Alls tóku 11 atriði þátt og stóðu allir sig með prýði. Umgjörð keppninnar var glæsileg sem og kynnirinn, en hann var enginn annar en Flosi Þorgeirsson – the one and only. Úr mörgu var að velja fyrir dómnefndina en að kvöldinu loknu stóð einn sigurvegari Nefrennslis uppi og mun keppa fyrir hönd skólans í söngkeppni Framhaldsskólanna sem fer fram síðar á þessari önn.

Hin tvítuga FSH-mær, Halla Marín Hafþórsdóttir, bar sigur úr býtum í ár. Hún söng lagið Not ready to make nice með Dixie Chicks. Hún stóð sig frábærlega í alla staði enda ekki óvön sönglistinni. Halla er ekki aðeins söngkona mikil heldur einnig frábær leikkona og fer hún með eitt aðalhlutverkanna í leikriti Píramus og Þispa, Grænir miðar, sem frumsýnt verður í mars næstkomandi.

Í öðru sæti var Dóra Hrund Gunnarsdóttir með lagið Halo úr þáttaröðinni One Tree Hill og í þriðja sæti urðu þeir Davíð Helgi Davíðsson og Ármann Örn Gunnlaugsson með lagið Trúir þú á engla? eftir Bubba Morthens. Við óskum sigurvegurunum sem og öllum keppendum hjartanlega til hamingju og við erum stolt af því að hafa svona topp listamenn í okkar litla skóla!

DA