Nemendafélag FSH

19.2.2009

EINKUNNARORÐ FSH


Nú hefur verið ákveðið að efna til kosninga um einkunnarorð skólans. 

Einkunnarorð skólans eiga að orða það sem mestu máli skiptir í skólastarfinu með einföldum og skýrum hætti. 

Einkunnarorðunum er ætlað að vera okkur öllum leiðarljós og hvatning í daglegu starfi okkar í skólanum.

Einkunnarorð skólans nú eru ÁRÆÐI – ÖRYGGI – ÁRANGUR.  Þau hafa hins vegar ekki verið í mikilli notkun og hefur því verið ákveðið að nemendur og starfsfólk fái að kjósa um nokkrar útfærslur að einkunnarorðum sem fulltrúar kennara hafa unnið í samstarfi við nemendafélagið.

Kosið verður um sex tillögur að einkunnarorðum og birtast þær á meðfylgjandi lista.  Einkunnarorðunum fylgja útskýringar svo að nemendur átti sig betur á því hvað átt er við með þeim.

Kosningin mun að öllum líkindum verða rafræn og fara fram í dillivikunni.  Nánari tímasetning verður auglýst síðar.  Ef ekki fæst afgerandi niðurstaða í þessari kosningu er hugsanlegt að önnur umferð fari fram síðar.

Ástæða er til að hvetja nemendur og starfsfólk til að kynna sér einkunnarorðin og útskýringarnar á þeim vel og vandlega og taka upplýsta afstöðu til þess hver einkunnarorð skólans munu verða.

Hugmyndir að einkunnarorðum FSH


1.  Frumkvæði – Samvinna – Hugrekki

2.  Framsýni –Samvinna –Heiðarleiki

3.  Frumkvæði – Samvinna – Heiðarleiki

4.  Samvinna – Sérstaða – Skynsemi

5.  Virðing – Víðsýni – Vellíðan

6.  Áræði – Öryggi – Árangur

 

Skýringar á einkunnarorðum

Frumkvæði
Nemendur þurfa að sýna frumkvæði í námi sínu til að ná settum markmiðum.  Eins þarf skólinn að sýna frumkvæði til að þróa starfsemi sína og ná fram sérstöðu.   Frumkvæði er í raun drifkraftur allra framfara, hvort sem er í námi eða starfi.

Framsýni
Bæði nemendum og skólanum í heild er nauðsynlegt að horfa fram á veginn og vita að hverju skal stefnt til að nám og starf verði markvisst og farsælt.

Samvinna
Það er mikilvægt að nemendur og starfsfólk geti starfað vel saman.  Á þann hátt verður andrúmsloft innan skólans jákvæðara og meiri árangur næst í námi.  Einnig er nauðsynlegt að skólinn vinni náið með samfélaginu og taki þátt í uppbyggingu þess og vexti.

Sérstaða
Allir skólar hafa ákveðna sérstöðu, s.s. varðandi námsleiðir, kennslutilhögun, staðsetningu, nemendafjölda o.s.frv.  Sérstaða FSH felst t.d. í nánu sambandi nemenda og kennara, staðsetningu í fögru umhverfi, nálægð við góðan tónlistarskóla, íþróttahús og sundlaug og samvinnu við blómlegt leikfélag.

Skynsemi
Eitt af því sem einkennir menntaða manneskju er skynsemi.  Skynsöm manneskja er dómbær á rétt og rangt og getur hagað sér í samræmi við aðstæður. 

Hugrekki
Hugrakkur einstaklingur getur horft fram á veginn og tekist á við aðstæður sem upp koma af yfirvegun og skynsemi.  Hann lætur ekki bugast þegar erfiðleikar steðja að heldur leitast við að finna lausn á hverjum vanda.  Hugrekki er mikilvægur eiginleiki í skólastarfi enda  standa nemendur og starfsfólk sífellt frammi fyrir verkefnum sem leysa þarf á farsælan hátt.

Heiðarleiki
Heiðarlegur einstaklingur hegðar sér sannleikanum samkvæmt og kemur fram við aðra af virðingu.  Heiðarleiki er mikilvægur í öllum samskiptum fólks til að gagnkvæmt traust geti myndast.  Allt skólastarf ætti því að miðast við að innræta nemendum heiðarlega framkomu.

Virðing
Allir eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu.  Allt skólastarf ætti því að miðast við að kenna nemendum að koma fram við aðra af virðingu og að bera virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. 

Víðsýni
Víðsýni er eiginleiki sem einkennir menntaða manneskju.  Víðsýnn einstaklingur  getur sett sig í spor annarra og er því umburðarlyndur og fordómalaus. 

Vellíðan
Til þess að árangur náist í skólastarfi er nauðsynlegt að nemendum og starfsfólki líði vel.  Í skólanum er því mikilvægt að jákvætt andrúmsloft ríki þar sem hver og einn getur notið sín sem einstaklingur.

Áræði
Áræði merkir kjarkur, þor og frumkvæði.  Áræðinn einstaklingur er óhræddur við að takast á við ný verkefni í lífi sínu.  Í námi felast sífellt nýjar áskoranir.  Því er nemendum nauðsynlegt að sýna áræði til að ná árangri. 

Öryggi
Öryggi skapar vellíðan á vinnustað.  Öryggi er undirstaða áræðis og árangurs.  Öryggi er fólgið í því að skólinn sé til staðar og að hann uppfylli þær kröfur sem nemendur og samfélagið allt gerir til hans.  Jafnframt er nauðsynlegt að nemendur stefni að markmiðum sínum af öryggi og festu.

Árangur
Árangur merkir að setja sér markmið og ná þeim.  Hugtakið árangur getur náð yfir gengi nemenda í námi, félagsþroska þeirra og samvinnuhæfni.  Einnig tekur hugtakið til árangurs af vinnu skólans í heild, þ.e. hvernig hann býr nemendur undir lífið.