Nemendafélag FSH

23.2.2009

DILLIVIKAN HAFIN


Skemmtilegasta skólavika ársins hófst í dag – vikan sem allir hafa beðið eftir með fullri eftirvæntingu allt skólaárið!

Dagurinn byrjaði á miklu bolluáti þar sem Sjoppan hf. bauð upp á ljúffengar rjómabollur á spottprís í tilefni bolludagsins. Nemendur skólans nýttu sér þetta að sjálfsögðu og mátti víða sjá menn gæða sér á dýrindis bollum.


Halldóra og Ólafía létu sig ekki vanta í bolluátinu, enda dyggir viðskiptavinir Sjoppunnar hf.

Eftir hádegi var komið að einum hápunkti dagsins – ratleikur um bæinn sem hannaður var af kennurum og nemendaráði. Menn mættu vel klæddir til leiks þar sem vetrarkonungur ríkti yfir Húsavík. Skipt var í nokkra hópa og voru póstarnir á víð og dreif um bæinn. Alls staðar mátti sjá káta framhaldsskólanema hlaupandi um bæinn í leit að póstum. Það var á vörum manna að þrautirnar/verkefnin voru miserfið og áhugaverð. Þrautin hjá Gunna Bald og Bjögga Leifs var til að mynda talin nokkuð þung en þrautin hjá skólameistaranum sjálfum mjög áhugaverð og biðu nemendur í röðum eftir að sjá rétta útkomu þrautarinnar. Úrslit úr ratleiknum verða birt á miðvikudaginn og eru vegleg verðlaun í boði fyrir vinningshópinn.


Linda Þuríður skipar hópnum fyrir verkum - greinilega mikil harðstýra þar á ferð!

Í kvöld skellti lýðurinn sér á leiksýningu hjá 10. bekk. Þar var á ferðinni frumsamið verk eftir Kristjönu Maríu Kristjánsdóttur, Ísland stórasta land í heimi. Þar er farið yfir atburði þjóðfélagsins á síðustu mánuðum á léttu nótunum og var það mat manna að sýningin hafi verið hin fyndnasta og greinilegt að upprennandi hæfileikar séu þar á ferð fyrir FSH!

Myndir frá ratleiknum eru komnar inn á vefinn í myndagallerý.

DA