Nemendafélag FSH

4.12.2007

Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2007

 Í gær, á degi fatlaðra, voru Hvatningarverðlaun ÖBÍ veitt í fyrsta sinn.

Verðlaunin voru veitt í þremur flokkum og í flokki stofnana hlaut Starfsendurhæfing Norðurlands þessa miklu viðurkenningu. Starfsendurhæfing Norðurlands er nýlega útvíkkuð starfsemi BYRS Starfsendurhæfingar sem var stofnuð hér á Húsavík árið 2003 með þátttöku Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga, Framhaldsskólans á Húsavík og Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. Hugmyndafræðingur þessa verkefnis og aðaldriffjöður er Geirlaug Björnsdóttir framkvæmdastjóri Starfsendurhæfingar Norðurlands. Þátttakendur verkefnisins úr Þingeyjarsýslu hafa stundað nám við FSH og vegnað afar vel. Eftir fyrstu fjögur ár starfseminnar eru 81 % þeirra sem hófu endurhæfingu komnir í fasta vinnu eða stunda nám eða eru enn í virkri endurhæfingu og þessi einstaki árangur hefur vakið mikla athygli um allt land eins og þessi verðlaun bera með sér. Framhaldsskólinn á Húsavík er þakklátur fyrir þessa viðurkenningu og stoltur yfir nemendum sínum og starfsmönnum sem tekið hafa þátt í þessu frumkvöðlastarfi. Þess má geta að FSH var líka tilnefndur til Starfsmenntaverðlauna Menntar, samstarfsvettvangs atvinnulífs og skóla, fyrir nýsköpunarstarf sitt á þessu sviði.