Nemendafélag FSH

20.11.2007

Spurningakeppni FSH og grunnskóla í Þingeyjarsýslu 2007

 FSH stóð fyrir spurningakeppni fyrir grunnskólana í Þingeyjarsýslum föstudaginn 16. nóv. sl.  Þetta var liður í undirbúningi liðs FSH fyrir Gettu betur keppnina og sá keppnislið FSH að mestu um undirbúning keppninnar.

Til leiks mættu 6 lið frá 5 skólum; tvö frá Borgarhólsskóla, eitt úr Öxarfjarðarskóla, Mývatnssveit, Þórshöfn og Raufarhöfn.

Í fyrstu umferð kepptu Borgarhólsskóli B við Raufarhöfn, Borgarhólsskóli A við Mývatn og Þórshöfn við Öxarfjarðarskóla. Sigurvegarar fyrstu lotu voru Öxarfjarðarskóli og bæði lið Borgarhólsskóla. Fóru þau lið því áfram í aðra umferð ásamt Mývetningum sem voru stigahæsta tapliðið.

Í annarri umferð keppti Mývatn við Borgarhólsskóla A og Öxarfjarðarskóli við Borgarhólsskóla B. Öxarfjarðarskóli og Borgarhólsskóli A unnu og kepptu því til úrslita. Borgharhólsskóli A sigraði 24-14, eftir að hafa verið 11-12 undir eftir hraðaspurningar.

 Í liði Öxarfjarðarskóla sem hafnaði í öðru sæti voru þau Aðalbjörn Jóhannsson, Einar Ólason og Jóhanna Margrét Gunnarsdóttir. Fengu þau 25 þúsund krónur í ferðasjóð í verðlaun

Í sigurliði Borgarhólsskóla voru þeir Davíð Helgi Davíðsson, Hlöðver Stefán Þorgeirsson og Hilmar Örn Kárason. Fengu þeir í verðlaun glæsilegan bikar til eignar og 50 þúsund krónur í ferðasjóð.

Þess má geta að þeir Davíð Helgi og Hlöðver Stefán voru einnig í sigurliðinu í fyrra.

 Að spurningakeppninni lokinni bauð FSH öllum keppendum og stuðningsfólki sem kom frá skólunum utan Húsavíkur upp á Pizzuveislu á Sölku. Að því loknu var farið á leiksýninguna „Biblía unga fólksins“, frumsamið verk eftir Kristjönu Maríu sem hún leikstýrir sjálf og 10.  bekkur Borgarhólsskóla sýnir.

 Tókst þetta allt saman ljómandi vel og krakkarnir stóðu sig allir mjög vel og voru sínum skólum til sóma.

Myndir frá keppninni eru hér.