Nemendafélag FSH

20.11.2007

Jónasarvaka á Húsavík

Föstudaginn 16. nóvember var haldin hátíð í íþróttahöllinni á Húsavík í tilefni af því að þann dag voru 200 ár liðin frá fæðingu skáldsins og náttúrufræðingsins Jónasar Hallgrímssonar. 

Húsvískt skólafólk af öllum skólastigum sáu um dagskránna sem var einkar vegleg og ljóst að krakkarnir höfðu lagt mikla vinnu í að gera hátíðina sem glæsilegasta.

Kórar skólanna sungu lög við ljóð Jónasar, flutt voru ljóð eftir Jónas og hans minnst í ræðum.  Hópur valinkunnra tónlistarmanna frá Húsavík sá um að leika undir fjöldasöng, m.a. Sigurður Hallmarsson heiðursgestur hátíðarinnar sem einnig flutti ljóðið "Óhræsið" eftir skáldið.

Þá setti Erla Sigurðardóttir, menningar- og fræðslufulltrúi Norðurþings, upplestrarkeppni grunnskólanna þar sem 7. bekkingar landsins etja kappi.  Um skipulagningu hátíðarinnar sá Hólmfríður Benediktsdóttir og Guðrún Kristín Jóhannsdóttir var henni innan handar, en á hátíðinni var einmitt frumflutt lag eftir Hólmfríði við kvæðið "Heiðlóarkvæði".

Fleiri myndir hér.