Nemendafélag FSH

26.9.2007

Hollvinir færa FSH gjöf

 

Hollvinir FSH færðu skólanum glæsilega gjöf á afmælishátíðinni. Það var keramikskál eftir listakonuna Jónu Birnu Óskarsdóttur sem útskrifaðist frá FSH 2001 og stundar nú myndlistarnám í Kaupmannahöfn. Í texta Jónu Birnu, sem fylgir skálinni segir: Verkið er handmótað í grófan steinleir og glerjað með tveimur mismunandi glerungum.  Skálin er tilvísun í viskubrunninn sem skólinn er og öldurnar þrjár í einkunnarorð skólans; áræði – öryggi – árangur.  Öldurnar eiga rætur undir skálinni og eru undirstaða hennar og grunnur, líkt og mætti segja um einkunnarorð skólans.  Form aldanna á einnig rætur að rekja til merkis skólans. Blái liturinn er djúpur og fjölbreytilegur þegar hann er skoðaður nánar.  Í honum leynast ýmis tilbrigði náttúrulegra lita og hreyfinga.  Ljósi litur aldanna sýnir hreinleika og að sama skapi sterkan karakter sem nær lengra og lengra.  Það er sérstaklega ánægjulegt að þessi glæsilega skál er fyrst verkið sem Jóna Birna selur á myndlistarferli sínum. Skálinni verður komið fyrir á verðugum stað í skólanum þar sem allir fá notið hennar.