Nemendafélag FSH

3.5.2007

Prófin byrjuð

Nú er kennslu lokið þessa önnina og prófin byrjuðu í gær. Eins og hefð er fyrir þá dimitteruðu útskriftarnemar á föstudaginn. Þeir byrjuðu daginn snemma eða um kl. 4 og fóru um bæinn og fögnuðu í yndislegu vorveðri. Nemendur heimsóttu kennara og starfsfólk skólans og færðu þeim rósir. Það gleður alltaf kennara að sjá nemendur hressa og káta snemma morguns og ekki var það öðruvísi þennan dag þó margir hefðu fengið stuttan svefn. Öllu starfsfólki var boðið í morgunverð í matstofu skólans kl. 7 og áttum við þar góða samverustund.
Útskriftarnemar sungu lag við ljóð eftir Sigríði Hörn Lárusdóttur sem er að útskrifast af viðskiptabraut. Ljóðið færðu þau skólanum fallega útprentað og innrammað. Kennurum þótti þessi dimission takast sérstaklega vel.
Takk fyrir okkur og gangi ykkur vel í prófunum.

Ljóð samið í tilefni af 20 ára afmæli Framhaldsskólans á Húsavík og flutt af útskriftarnemum vorið 2007:

                        FSH
Að mennta sig er máttur það er satt
já menntasviðið langt er bæði og breitt
upp metorðsstigann klifrað getur hratt
en hafa skaltu í huga ávallt eitt.

Að koma fram hreint og beint
það er aldrei of seint
tækifærin mörg, svo margt í boði er
hafðu á sjálfum þér trú, því í lífinu jú
muntu uppskera líkt eins og sáðir þú.

Ekki alltaf auðvelt átti val
enginn sína ævi alla veit
af áræðni með öryggi ég skal
ná árangri og strengi þess heit.

Að koma fram hreint og beint
það er aldrei of seint
allur heimurinn hann bíður eftir mér
settu markmiðið að ná, sannarlega ég þá
stoltur útskrifast með próf frá FSH.
                                                         (SHL)