Nemendafélag FSH

20.2.2007

Íslenskir unglingar frá sjónarhóli þjóðfélagsfræðinnar

Kjartan, Þóroddur og ArnfríðurMiðvikudaginn 14. febrúar fengum við skemmtilega heimsókn frá Háskólanum á Akureyrir þegar þeir Kjartan Ólafsson lektor og Þóroddur Bjarnason prófesor við skólann komu og kynntu tvær félagsfræðirannsóknir sem þeir hafa verið að gera á íslenskum unglingum.
Kjartan kynnti rannsókn sem bar nafnið “Með ferköntuð augu af sjónvarpsglápi” en þar rakti hann sjónvarpssögu Íslendinga með sérstakri áherslu á sjónvarpsnotkun unglinga. Þóroddur kynnti síðan rannsókn sem hann kallaði “Ástir og ofbeldi í íslenskum grunnskólum” en þar er hann að skoða tengsl ofbeldis, kynlífs og áfengisneyslu nemenda í 10. bekk grunnskóla.
Segja má að þetta hafi verið nokkurs konar félagsfræðilegt "sex, drugs, & rock 'n roll" - uppeldi, menning og frávikshegðun eins og það birtist Kjartani og Þóroddi í rannsóknum þeirra.

Markmiðið með heimsókninni var tvíþætt. Í fyrsta lagi að kynna fyrir nemendum eitt af starfssviðum félagsfræðinga, þ.e. að vinna við rannsóknir. Og í öðru lagi að efla samstarf Háskólans á Akureyri og Framhaldsskólans á Húsavík.

Gaman er að geta þess að 27. – 28. apríl n.k. verður haldin ráðstefna um íslenska þjóðfélagsfræði við Háskólann á Akureyri. Og er ráðstefnan liður í því að efla samstarf háskólanna og framhaldsskólanna á svæðinu.
Að ráðstefnunni standa Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum, Framhaldsskólinn á Húsavík, Framhaldsskólinn á Laugum, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Egilstöðum, Menntaskólinn á Ísafirði, Verkmenntaskóli Austurlands, Verkmenntaskólinn á Akureyri Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Samtök félagsfræðinga á Norðurlandi. Undirbúningurinn að ráðstefnunni gengur vel og bendir allt til þess að hún verði vel sótt og skemmtileg.

Myndir