Nemendafélag FSH

17.2.2007

Húsvískir unglæknar í heimsókn

Ásgeir, Ingólfur Freysson og ValgerðurTveir unglæknar þau Valgerður Árnadóttir og Ásgeir Alexandersson frá Ástráði(www.astradur.is) komu í heimsókn s.l. miðvikudag og héldu fræðslu um kynhegðun unglinga. Fræðsluverkefni þeirra fjallaði um forvarnir gegn kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum. Hér er um að ræða eitt helsta heilbrigðis- og félagslegt vandamál ungs fólks sem brýnt er að vinna bót á. Þetta fræðslustarf læknanemanna hentar vel þar sem þeir hafa góða þekkingu á þessum vanda gegnum námið sitt auk þess sem þeir ná vel til unglinganna.

Fram kom m.a. í fræðsluerindi læknanemanna að flestir þeirra sem smitast af kynsjúkdómum eða fara í fóstureyðingu eru á aldrinum 16 – 25 ára. Mikilvægt er að koma fræðslu til skila áður en skaðinn er skeður. Forvarnastarfið byggist á að ná til 16 ára unglinga  með skólaheimsóknum, þar sem áhersla er lögð á fræðslu um kynsjúkdóma, getnaðarvarnir og fóstureyðingar.

Svo skemmtilega vill til að þau Valgerður og Ásgeir eiga ættir sínar að rekja til Húsavíkur. Mæður þeirra fæddust á Húsavík og luku skyldunámi sínu í Gagnfræðaskóla Húsavíkur. Valgerður er dóttir Hólmfríðar Þorgeirsdóttur sem bjó á Laugabrekku og Ásgeir er sonur Rósu Kristjánsdóttur úr Bröttuhlíð sem bjó á Héðinsbraut.