22.5.2006

Skólaslitin

Á laugardaginn kvaddi góður hópur nemenda Framhaldsskólann við hátíðlega athöfn í kirkjunni. Af þessum hópi voru 19 nemendur skólans að útskrifast með stúdentsprófi. Þá lauk einn nemandi námi af almennri braut, þrír nemendur brautskráðust af almennri braut – endurmenntunnar, þrír af starfsbraut og fimm af sjúkraliðabraut, tveir þeirra luku einnig viðbótarnámi til stúdentsprófs.  Einnig  voru kvaddir tveir skiptinemar sem stundað hafa nám við skólann á þessu skólaári.
Arna Rún Oddsdóttir var með hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi með meðaleinkunn 8,55 en hún lauk prófinu á 3 árum.  Hollvinasamtök Framhaldsskólans á Húsavík og Bókaverslun Þórarins Stefánssonar færðu henni vandaða digital ljósmyndavél að launum. Einnig hlaut hún verðlaun fyrir góðan árangur í sálfræði frá Sparisjóði Þingeyringa og fyrir góðan námsárangur á Félagsfræðibraut frá Glitni á Húsavík.

Aðrir sem hlutu viðurkenningar og verðlaun voru:

  • Agnes Árnadóttir, frá Þýska sendiráðinu fyrir góðan námsárangur í þýsku, frá Framhaldsskólanum á Húsavík fyrir góðan árangurá Náttúrufræðibraut og fyrir félagsstörf  frá Fjölskyldu- og þjónusturáði Húsavíkurbæjar
  • Grétar Þór Björnsson fyrir góðan námsárangur í eðlis- og efnafræði frá Tækniþingi á Húsavík 
  • Sigrún Arnórsdóttir fyrir góðan námsárangur á Almennri braut – endurmenntun frá Landsbankanum á Húsavík
  • Berglind Ólafsdóttir fyrir góðan námsárangur í hjúkrunargreinum frá Verkalýðsfélagi Húsavíkur og nágrennis
  • Jóna Rún Skarphéðinsdóttir fyrir góðan námsárangur og frábæra skólasókn á Starfsbraut frá Alla Geira hf á Húsavík
  • Harpa Ásgeirsdóttir fyrir fél agsstörf  frá Fjölskyldu- og þjónusturáði Húsavíkurbæjar en hún var formaður nemendaráðs
  • Björk Halldórsdóttir fyrir góðan námsárangur á Sjúkraliðabraut frá Lyfju á Húsavík 
  • Sigrún Elín Brynjarsdóttir frá Menningarsjóði þingeyskra.

Í ræðu sinni kom skólameistari Guðmundur Birkir inn á umræðuna í vetur um styttingu náms til stúdentsprófs sem hefur verið ein helsta áhersla menntamálaráðherra. Um þessi áform hafa orðið miklar umræður í fjölmiðlum í vetur og hefur hugmyndin mætt harðri andstöðu almennings og þá sérstaklega skólamanna. Andstaðan er þó mest við tillöguna um að stytta framhaldsskólann um eitt ár og láta svo gott heita.
Guðmundur Birkir lagði það til skoðað yrði í fyllstu alvöru hvort ekki mætti ná góðri sátt um að gera róttækar breytingar á skólakerfinu þannig að grunnskólinn yrði átta ár og lyki við ferminguna og framhaldsskólinn yrði fimm ár. Þá var hann að tala um meðalnámstíma því áherslu ætti að leggja á sveigjanleika og einstaklingsþarfir. Þar með yrði hægt að koma til móts við kröfuna um þrettán ára nám til stúdentsprófs með þeim hætti að engin skerðing yrði á náminu vegna þess að meira svigrúm gæfist til að endurskipuleggja námskrána á báðum skólastigum.